Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:04:10 (6711)

1996-05-29 10:04:10# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þegar undirbúinn var samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði gerðu margir hérlendis kröfu til þess að landið og náttúruauðlindir þess ásamt fiskimiðunum yrðu undanskilin ákvæðum samningsins. Í yfirlýsingu sem Steingrímur Hermannsson, þáv. forsrh., gaf á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna um þetta mál í Ósló 14. mars 1989 sagði hann m.a.:

,,Við verðum ætíð að hafa stjórn á náttúruauðlindum Íslands sem eru grundvöllur tilveru okkar. Við teljum ekki að fjarlægt vald muni nokkru sinni geta haft þá stjórn á viðkvæmum náttúruauðlindum að okkar hagsmuna sé gætt. Slíkar grundvallarstaðreyndir munu ráða ákvörðunum okkar með tilliti til náins samstarfs við Evrópubandalagið og innan hinnar evrópsku efnahagsheildar.``

Þetta var mikilvæg yfirlýsing við upphaf ferðar en var því miður fljótlega stungið undir stól í samningaviðræðum þar sem að lokum var enginn varanlegur fyrirvari af Íslands hálfu um kaup á landi og gæðum þess að orkulindunum meðtöldum. Tímabundinn fyrirvari um fjárfestingar á þessu sviði rann út um síðustu áramót án þess að Alþingi hefði brugðið nokkrum skildi fyrir með löggjöf til að tryggja forræði landsmanna yfir náttúruauðlindum, fallvötnum, jarðhita og auðæfum í jörðu. Fyrir þinginu hafa þó nú á annan áratug legið frumvörp um þessi efni en ekki hlotið lögfestingu. Stjórnvöld hafa um margra ára skeið lofað því að stjórnarfrumvörp sem tryggja mundu forræði yfir gæðum landsins færu að koma fram, ef ekki í haust þá að vori. Þessu lofaði fyrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem bar ábyrgð á EES-samningnum, og þessu hefur verið lofað af núv. ríkisstjórn.

Hæstv. iðnrh. sagði í haust að frv. um þetta efni kæmi fram fyrir síðustu jól. Síðan nefndi hann þorrann og góuna. Enn rignir nýjum stjórnarfrumvörpum yfir okkur á Alþingi en frv. til að tryggja þjóðarhagsmuni eins og þá sem hér er lýst eftir er ekki þar á meðal. Enn spyr ég því ráðherrann: Hvað veldur því að slíkt frv. er enn ekki komið fram? Hvenær mun ráðherra leggja slíkt frv. fram í þinginu? Þetta er brýn spurning, ekki aðeins vegna þess að fyrirvarar eru liðnir og sviðið opið gagnvart EES, heldur einnig vegna þess að Evrópusambandið er nú á fullri ferð með að móta nýja tilskipun á sviði orkumála, að þessu sinni um sameiginlegar reglur fyrir markað með rafmagn. Í tilskipuninni á samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að kveða á um afnám á einkarétti starfandi orkufyrirtækja, aðskilnað á raforkuvinnslu frá raforkuflutningi og aðgreiningu á dreifingu rafmagns. Með tilskipuninni væri stigið stórt skref í þá átt að fella markað með raforku undir almennar reglur eins og við þekkjum þær í EES-samningnum. Verið er að ryðja brautina fyrir frjálsa fjárfestingu og samkeppni á orkusviði og afleiðingarnar verða margar. Ef tilskipun af þessum toga öðlaðist gildi hér á landi á grundvelli EES-samningsins þyrfti að breyta lykilatriðum í gildandi orkulöggjöf sem tryggt hefur stjórn Alþingis á framvindu orkumála. Fella yrði niður áskilnað um samþykki Alþingis fyrir virkjunum sem eru stærri en tvö megavött og setja þess í stað almenn skilyrði sem tryggðu jafnræði aðila á öllu EES-svæðinu til að virkja og taka þátt í annarri framkvæmd raforkusviða settum almennum skilyrðum. Aðstaða fyrirtækis eins og Landsvirkjunar mundi að sjálfsögðu gerbreytast og líklega yrði að fela öðrum og óháðum aðila rekstur orkuflutningskerfisins. Hætt er við að sú stefna, sem fylgt hefur verið um afhendingaröryggi og jöfnun raforkuverðs, væri sett í mikla óvissu. Slíkar breytingar varða ekki síst hag íbúa hinna dreifðu byggða.

Þá geta áhrifin á meðferð umhverfismála sem hérlendis tengjast mjög virkjun vatnsafls og jarðvarma orðið mikil og afdrifarík þegar margir aðilar verða um hituna sem sumir hverjir þekkja lítið til íslensks umhverfis og samfélags. Bág staða skipulagsmála hérlendis bætir þar ekki úr skák.

Maður hefði vænst þess að ráðherra raforkumála slægi þegar í stað skýra varnagla þegar fréttist af slíkri tilskipun á færibandinu í Brussel. Sérstaða Íslands á sviði orkumála er margháttuð og felst m.a. í einangrun raforkukerfis okkar frá kerfum annarra landa. Sterk og augljós rök eru fyrir því að Íslendingar standi utan við tilskipun af þessu tagi með tilliti til lítils og einangraðs orkumarkaðar, strjálbýlis og óblíðrar veðráttu. Eðlilegt væri því að boða þegar í stað fyrirvara af Íslands hálfu við þessa væntanlegu tilskipun og mótmæla því að hún verði látin ná til EFTA-ríkja. Verði ekki við því orðið er eðlilegt að skoða framhaldið í ljósi svonefndra öryggisákvæða EES-samningsins með tilliti til þjóðarhagsmuna.

En þetta voru ekki viðbrögð iðnrh. Hann geystist þvert á móti fram á völlinn í fjölmiðlum sama dag og ráðherrar Evrópusambandsins funduðu um tilskipunina og lýsti nánast yfir ánægju sinni með það sem í vændum væri. Það liggja fyrir ummæli hans í Ríkisútvarpi um þessi efni m.a. þar sem hann segir: ,,Hornsteinarnir í þessari tillögu eða tilskipun eins og hún liggur núna fyrir koma ekkert á óvart og við höfum vitað að þetta stæði til og höfum verið að undirbúa okkur þess vegna. Ég hef a.m.k. sjálfur reiknað með því að þetta mundi gerast með þessum hætti og verið undir það búinn að við þyrftum að mæta þessum breyttu aðstæðum.``

Af þessu tilefni, virðulegur forseti, og fleiri yfirlýsinga iðnrh. er óhjákvæmilegt að spyrja: Túlkaði ráðherra með yfirlýsingum sínum um þessa væntanlegu tilskipun afstöðu Framsfl. og ríkisstjórnarinnar til málsins? Ef svo er ekki, hver er þá afstaða ríkisstjórnarinnar eins og málið liggur nú fyrir og hvernig ætla íslensk stjórnvöld að bregðast við ef tilskipunin um innri markað fyrir rafmagn verður að veruleika?