Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:17:40 (6713)

1996-05-29 10:17:40# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það kemur alþingismönnum vissulega ekki á óvart að EES-samningurinn heimilaði fjárfestingu erlendra aðila í orkumannvirkjum á Íslandi. Það á ekki heldur að koma hv. þingmönnum á óvart að það er gert ráð fyrir því að verulegar skipulagsbreytingar verði í framhaldi af undirritun orkusáttmála Evrópu. Það var vilji alþingismanna þegar EES-samningurinn var ræddur hér og afgreiddur á sínum tíma að áður en ákvæði hans um orkumál fengju gildi og Ísland fékk frest í þeim efnum til 1. janúar sl., yrði gengið frá lögum um skipan virkjunarmála og námuréttinda og var lýst yfir af þáv. ríkisstjórn að það yrði gert og mikill meirihlutastuðningur fyrir því á Alþingi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í fyrrv. ríkisstjórn tókst hins vegar ekki að ná samkomulagi.

Í umræðum um erlendar fjárfestingar vegna frv. sem flutt var fyrr í vetur lýsti hæstv. iðnrh. yfir því við 1. umr. málsins að hann mundi sjá til þess að nefnd sú sem hann ræddi um mundi ljúka störfum fyrir lok þessa þings og að frumvörp um virkjunarréttindi og námuréttindi yrðu lögð fyrir Alþingi og kynnt Alþingi áður en þingi lyki nú í vor þó hann gæti ekki fullyrt að það tækist að afgreiða málið. Nú virðist vera að það markmið hæstv. ráðherra nái ekki fram að ganga, þ.e. það virðist ekki hafa tekist að ljúka þessu verki. Ég vil benda á í því sambandi að það liggja nú þegar tvö frumvörp um þessi viðamiklu mál fyrir Alþingi Íslendinga, annars vegar frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er 1. flm. að og hins vegar frv. sem ég er 1. flm. að. Og fyrst ekki hefur tekist af hálfu ríkisstjórnarinnar einu sinni að kynna þessi mál fyrir þinglok, tel ég rétt að iðnn. Alþingis hugi að því hvort það sé ekki rétt að afgreiða annað hvort þessara frumvarpa eða samræma þau. Og ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað veldur því að hann getur ekki staðið við þá yfirlýsingu sem hann gaf á Alþingi fyrr í vetur um að kynna þessi frumvörp á þinginu í vor? Í öðru lagi: Er full samstaða um það í ríkisstjórninni að frumvörp af þessu tagi verði flutt á haustþingi eða er ágreiningur enn um málið?