Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:20:20 (6714)

1996-05-29 10:20:20# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. ráðherra voru með eindæmum daufleg. Satt best að segja er langt síðan ég hef heyrt jafnvandræðalega málsvörn í einu litlu máli og þessu hér.

Varðandi þetta með frumvörpin hefur hæstv. ráðherra talið niður í allan vetur. Hann byrjaði með því að lofa þessu í jólamánuðinum og það er athyglisvert að það er notað hið gamla tímatal, það var ýlir og mörsugur, svo kom þorri, svo kom góa og svo einmánuður, svo harpa, svo skerpla og nú er þetta komið aftur fyrir heyannir hjá hæstv. ráðherra. Þannig heldur hann áfram aftur á bak eftir almanakinu og væntanlega ár af ári ef svo fer.

Staðreyndin er sú að yfirlýsingar hæstv. ráðherra í þessum efnum hafa reynst algerlega ómarktækar, algert bull. Hvað veldur er hins vegar ráðgáta. Er það kannski svo í þessu máli eins og flestum sem við upplifum þessa dagana að Framsókn liggi flöt fyrir íhaldinu og þar sé einhver með neitunarvald, einhver með veto í ríkisstjórninni eða stjórnarliðinu sem gerir það að verkum að hæstv. ráðherra má koma hér trekk og trekk og telja niður dagatalið með þeim hætti sem hér er gert?

Staðreyndin er sú að þetta mál er algerlega afvelta miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar voru strax í upphafi af þáv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni. Það hefur allan tímann verið sagt og hæstv. ráðherra var enn að tuða um það að við gætum gert þetta og hitt en það er ekki gert. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að það er ekki gert? Það líða heil kjörtímabil og menn segja: Þetta er allt í lagi af því að við getum sett lög. Það er ekkert sem bannar að ríkið hafi þennan einkarétt vegna þess að það er ekki mismunun milli borgaranna. Af hverju er það þá ekki gert? Af hverju er hann ekki festur í lögum? Og nú kemur hæstv. ráðherra og segir að þetta sé í lagi af því að við getum sett skilyrði og þá þurfi ríkisstjórnin að hafa skýra stefnu um þau skilyrði þegar þar að kemur. Af hverju eru þau þá ekki ákveðin og þetta fest í lög? Málið er ósköp einfaldlega afvelta og það eru liðin fjögur, fimm ár af yfirlýsingum af þessu tagi sem verða auðvitað þeim mun marklausari sem þessi tími verður lengri.

Ég tek undir það með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra er ómarktækur í þessu máli. Ríkisstjórnin nær ekki neinu fram þannig að Alþingi verður sjálft að taka í taumana og iðnn. þingsins að leggja vinnu í þau frumvörp sem liggja fyrir og afgreiða þau. Það er komið til kasta Alþingis að lögfesta þau ákvæði í þessum efnum sem við viljum að um þetta gildi.