Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:25:30 (6716)

1996-05-29 10:25:30# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:25]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að hefja þessa umræðu sem ég held að sé nauðsynleg og þörf fyrir okkur á hinu háa Alþingi. Ég vil fagna því sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. að það hafa verið settir fram fyrirvarar vegna undirbúnings að setningu reglugerða á vegum Evrópusambandsins sem hefði þá áhrif á samninginn hjá okkur, samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði hvað varðar orkumál.

Ég tel nauðsynlegt að það komi fram í þessari umræðu mjög skýrt og skilmerkilega að það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að koma rækilega á framfæri þeim skilaboðum sem tengjast þeirri staðreynd að við erum á Íslandi með mjög einangraðan og afmarkaðan raforkumarkað. Það er ekki hægt með sama hætti að setja reglur sem gilda um þann markað eins og hann er í dag og þær sem hægt er að setja í Evrópu þar sem lönd liggja saman og hægt er að hafa allt annars konar frelsi í viðskiptum með raforku en hægt er að hafa á Íslandi. Þetta vil ég að komi skýrt fram, enda held ég að hæstv. iðnrh. hafi látið það koma greinilega fram í sínu svari.

Ég vil í þessari umræðu, hæstv. forseti, undirstrika að ég tel afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að halda sterkri stöðu Landsvirkjunar, sterkri stöðu til þess að geta haldið áfram jöfnun á raforkuverði í landinu og til þess að geta lækkað það sem mest til hagsbóta fyrir okkur Íslendinga. Ef staða Landsvirkjunar verður veikt er alveg ljóst að dreifiveiturnar sem eiga þá að ganga inn í þessa samkeppni, ef um það yrði að ræða, geta ekki veitt þá þjónustu í verði eða öðru sem okkur er nauðsynlegt í okkar dreifbýla landi. Þetta vil ég að komi fram, herra forseti.