Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:30:45 (6718)

1996-05-29 10:30:45# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Málsvörn hæstv. iðnrh. er mjög sérkennileg í þessu efni. Hann neitar í raun að horfast í augu við staðreyndir. Hann afneitar eigin ummælum í Ríkisútvarpinu, á Stöð 2 eða Bylgjunni 8. eða 9. maí eins og hann hafi ekkert verið að fjalla um tilskipun Evrópusambandsins. Útskriftir af þessum efnum liggja fyrir. Ráðherrann var þar ekkert að tala um lögin sem sett voru 15. maí. Það voru viðbrögð við væntanlegri tilskipun Evrópusambandsins sem hann var að fjalla um þar og þýðir ekkert að hlaupa frá slíku. Það er satt að segja hörmulegt þegar ekki er hægt að fá í svo þýðingarmiklu máli skýr viðbrögð af hálfu stjórnvaldsins. Það er ábyrgðarhluti að standa þannig að máli, hæstv. iðnrh.

Hér er verið að gera sem minnst úr áhrifum þeirrar tilskipunar sem væntanleg er frá Evrópusambandinu þegar verið er að gerbreyta aðstæðum í sambandi við raforkumál þannig að menn kunna að þurfa ef þetta gengur yfir okkur að gerbreyta skipulagi mála varðandi okkar raforkufyrirtæki, dreifingu raforkunnar o.s.frv. Þá hefur hæstv. ráðherra ekki miklar áhyggjur af því. Hann segir að framkvæmdastjórn hafi verið bent á að kerfi væri til eins og hið einangraða íslenska og af Íslands hálfu hafi verið sagt að sum ákvæði þessarar tilskipunar kunni ekki að eiga við hér á landi. Er það nú málsvörn. Eru það nú viðbrögð. Hvers vegna er afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu stóra máli ekki komið á framfæri við framkvæmdastjórnina í Brussel og ráðherraráðið þannig að menn velkist ekki í vafa? En stefnan liggur ekki fyrir nema það sé þá það að taka við þessari tilskipun og laga íslenska löggjöf og íslenskar aðstæður í raforkumálum að tilskipuninni.

Ég fagnaði sérstaklega því sem kom fram frá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni í þessu máli. Það voru skýr viðbrögð. Það voru skýr varnaðarorð þannig að það virðist vera sem Framsfl. sé langtum slappari en Sjálfstfl., a.m.k. að hluta til, í þessum efnum.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, menn ættu að líta til Danmerkur. Þar er verið að renna í gegn núna frv. til þess að bregðast við þessari tilskipun þar sem segir í kynningu á þessu frv.: Nej, til liberaliserad energi market og eksport af elektricitet, sem sagt að vera að breyta danskri löggjöf til varnar ákvæðunum í Brussel. En hér er ekki neitt aðhafst sem marktækt getur talist og vísað í frv. sem afgreitt var miðjan maímánuð. Það kemur þessu máli lítið við. Þar var lágmarksaðlögun að þeim veruleika sem við búum við en varðar ekki þá tilskipun sem er að koma yfir okkur.