Byggingarlög

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:37:32 (6720)

1996-05-29 10:37:32# 120. lþ. 151.9 fundur 536. mál: #A byggingarlög# (raflagnahönnuðir) frv. 92/1996, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:37]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum, sem flutt er á þskj. 1077 og er 536. mál þingsins. Í frv. því sem hér er mælt fyrir til breytinga á byggingarlögunum með síðari breytingum er ætlað að tryggja rétt þeirra sem til þessa hafa athugasemdalaust lagt fram og fengið samþykktar raflagnateikningar af húsum og öðrum mannvirkjum án þess að hafa hlotið löggildingu til slíkra starfa.

Í 12. gr. byggingarlaga, nr. 54/1978, sem tóku gildi 1. jan. 1979, segir að rétt til að gera séruppdrætti að húsum og öðrum mannvirkjum hafi arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, hver á sínu sviði, svo og búfræðikandídatar og í tæknideildum búnaðarháskóla. Rétturinn er háður svokallaðri löggildingu sem umhvrh. veitir að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarfélags og skipulagsstjóra ríkisins.

Þrátt fyrir að ákvæði byggingarlaga séu svo ótvíræð hefur framkvæmdin hvað snertir raflagnahönnuði verið önnur. Þótt séruppdrættir eigi að vera háðir eftirliti og samdrætti byggingarfulltrúa hefur framkvæmdin lengst af verið eins og hún var fyrir gildistöku laganna þegar um hönnun raflagna hefur verið að ræða sem er að eftirlit með séruppdráttum af raflögn hefur verið í höndum rafveitna. Af hálfu rafveitna hefur verið lögð megináhersla á gæði hönnunarinnar en ekki leitað eftir því hvort hlutaðeigandi hefði löggildingu til starfans. Þannig hafa í reynd ekki verið gerðar kröfur til þess að hönnuðir raflagnateikninga uppfylltu skilyrði 12. gr. byggingarlaganna.

Komið hafa fram athugasemdir frá löggiltum hönnuðum um framkvæmdina auk þess sem umboðsmaður Alþingis fékk málið til fyrirgreiðslu. Að vandlega íhuguðu máli ákvað ráðuneytið að ekki væri stætt á öðru en 12. gr. byggingarlaganna gilti jafnt um raflagnahönnuði sem og um aðra hönnuði enda ekki hlutverk ráðuneytins að ákveða að lög hafi fallið úr gildi sökum notkunarleysis. Í byrjun ársins sendi ráðuneytið byggingarfullrúum og byggingarnefndum erindi þar sem beint var þeim tilmælum til þessara aðila að gengið yrði ríkt eftir því að ákvæði 12. gr. byggingarlaga, nr. 54/1978, með síðari breytingum, næðu til raflagnateikninga sem og annarra teikninga. Þó var gert ráð fyrir að framkvæmdin yrði óbreytt til 1. júní nk. meðan þess yrði freistað að ná fram breytingum á lögunum með það fyrir augum að víkka heimildina til veitinga starfsréttinda til að tryggja rétt þeirra raflagnahönnuða sem fengið hafa að leggja fram raflagnateikningar án þess að vera með viðurkenningu ráðherra til þess eins og lög mæla fyrir enda miklir hagsmunir í húfi fyrir hlutaðeigandi einstaklinga marga hverja.

Sem kunnugt er hefur frv. til skipulags- og byggingarlaga verið til umfjöllunar á Alþingi að undanförnu og var ætlunin að skjóta inn í það frv. ákvæði til bráðabirgða til þess að tryggja rétt raflagnahönnuða í samræmi við það sem ég hef áður greint frá. Þar sem fyrirséð er að frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi og um er að ræða verulega hagsmuni einstakra raflagnahönnuða er þess óskað að fá fram skýran vilja Alþingis í því máli og er frv. lagt fram í því skyni.

Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að við byggingarlög, nr. 54/1978, með síðari breytingum, bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að einstaklingar sem lokið hafa námi á rafsviði og störfuðu 1. jan. 1996 við raflagnahönnun eða höfðu á næstliðnum þremur árum fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnateikningum eigi þrátt fyrir ákvæði 12. gr. rétt á fullu eða takmörkuðu starfsleyfi sem raflagnahönnuðir enda sæki þeir um slíkt leyfi til umhvrh. fyrir 1. jan. 1997. Með þessu á að vera tryggt að til grundvallar liggi menntun á rafsviði og að hlutaðeigandi hafi fengist við raflagnahönnun undanfarin ár. Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð um nánari ákvæði um framkvæmdina.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. þetta. Ég tel mjög brýnt að frv. nái fram að ganga á þessu þingi og hægt verði að ljúka því máli sem hér um ræðir í eitt skipti fyrir öll. Nái frv. ekki fram að ganga er ljóst að 12. gr. frv. verður beitt í tengslum við raflagnahönnuði eins og um alla aðra hönnuði samkvæmt byggingarlögum. Munu við það fjölmargir aðilar missa rétt til að vinna við raflagnahönnun og þar með atvinnu sína. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn. að lokinni þessari umræðu og legg til að málið fái skjóta afgreiðslu.