Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:42:38 (6721)

1996-05-29 10:42:38# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:42]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi byrja á því að spyrja hvort hæstv. samgrh. hefur ekki hugsað sér að vera viðstaddur umræðuna sem er vitanlega sjálfsagt og eðlilegt. Ég spyr hæstv. forseta hvort hæstv. samgrh. er í þinghúsinu.

(Forseti (RA): Hann mun vera í þinghúsinu og er genginn í salinn.)

Veri hæstv. samgrh. velkominn. Það er reyndar tæp vika síðan ég hóf mál mitt um þetta frv. og ég held að ég verði að rifja í örfáum orðum upp fyrir sjálfri mér og öðrum hverju ég hafði þegar komið til skila áður en ég held ræðu minni áfram.

Ég minnti á það í mínu máli að í rauninni væru margir eða líklega flestir sem hafa sett sig inn í þetta mál sammála um réttmæti þess að endurskoða skipulag og stjórnun Pósts og síma, það sé nauðsynlegt að búa stofnuninni þau skilyrði að hún geti brugðist skjótt við vaxandi samkeppni en hins vegar greini menn á um leiðir eins og ljóst má vera af nefndarálitum hv. samgn. en þau eru tvö eins og þingmönnum er kunnugt.

Þetta mál hefur margar hliðar og það þarf að gaumgæfa þær allar því að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Ein hliðin snýr að sjálfsögðu að neytendum, önnur að hagsmunum starfsmanna og svo er það sú hlið sem að ríkisvaldinu snýr og þá fyrst og fremst að ríkissjóði. Póstur og sími hefur reyndar verið ein af bestu mjólkurkúm ríkissjóðs á síðari áratug og er t.d. ætlað að skila 860 millj. kr. í ríkissjóð á þessu ári. Það er engin trygging fyrir því að tekjur ríkisins af Pósti og síma verði svo miklar eftir að sú breyting hefur átt sér stað sem lögð er til í frv. ef hún verður samþykkt og reynar lítil líkindi til þess. Spurt hefur verið ítrekað um þetta atriði og fengist heldur óljós svör en þó hefur mátt ráða af þeim svörum að menn búast við umtalsvert minni tekjum í ríkissjóð eftir en áður. Þá hljótum við að spyrja okkur út frá hagsmunum ríkissjóðs hvort þetta sé rétta leiðin. Það væri kannski ekki með öllu illt ef við hefðum tryggingu fyrir því að neytendur þjónustunnar nytu þá þess í betri þjónustu og lægri gjöldum en það er engan veginn tryggt og raunar því miður heldur ólíklegt ef litið er til reynslu annarra þjóða af markaðsvæðingu þessarar þjónustu.

[10:45]

Það er sérstaklega ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu póstþjónustunnar og um það fjallaði ég allítarlega í máli mínu fyrir tæpri viku. Það er í rauninni eitt af furðulegustu atriðum þessa máls að hér skuli lagt til að gera Póst- og símamálastofnunina í einu lagi að hlutafélagi án þess að ganga fyrst að því verki sem hlýtur að koma að fyrr en síðar, þ.e. að aðskilja rekstur póstþjónustunnar og símaþjónustunnar. Engin rök hafa verið færð fyrir því að bíða með þennan aðskilnað þó að í greinargerðinni sé drepið á þann kost og til þess vísað að víðast hvar er þessi rekstur í tveimur stofnunum. Þetta er ólíkur rekstur á margan hátt og ólík þjónusta og hún hefur verið að færast í sundur, aðgreinast æ meir hér á landi á síðustu árum, þ.e. hvað þjónustuna varðar en ekki fjárhaginn. Ég minnti á það í fyrri hluta ræðu minnar að símaþjónustan hefur í raun og veru haldið póstþjónustunni uppi og ef ég man rétt hefur þarna verið um 300 millj. kr. millifærslur að ræða á ári þessi síðustu ár. Ég tel augljóst að þessi þjónusta muni áfram þurfa á styrk og stuðningi að halda.

Herra forseti. Við verðum að horfast í augu við það að póstþjónustan er mikilvæg samfélagsleg þjónusta sem stjórnvöld verða að bera ábyrgð á og tryggja jafnan rétt allra til að njóta hennar. Þessi staðreynd hefur verið viðurkennd víða í Evrópu og virt með því að styrkja einkaleyfi póststjórna með samræmingu burðargjalda á ákveðnum hluta sendinga enda þótt samkeppni ríki til fulls á sumum sviðum póstþjónustu.

Herra forseti. Mér finnst athyglisvert að hæstv. samgrh. er að sönnu í húsinu en ... (Samgrh.: Ég er búinn að heyra þennan hluta ræðunnar einu sinni áður og er ekki búinn að gleyma öllu því sem þá var sagt.) Það er gott að minni hæstv. samgrh. er svo gott og ég sé að hann hefur sótt sér lesefni til þess að þurfa ekki að hlusta um of á það sem hér er sagt en eins og ég gat um er fyrst og fremst símaþjónustan sem hefur verið einkavædd. Sums staðar er póstþjónustan rekin í formi hlutafélaga en flest þeirra eru fullkomlega í eigu ríkisins og er mun minni áhugi á að einkavæða þá þjónustu vegna samfélagslegs eðlis hennar.

Í Danmörku var farin önnur leið en hér er lögð til. Það var hlustað á rök í þessu efni. Þegar voru uppi hugmyndir um að gera stofnunina, þ.e. Post Danmark, að hlutafélagi líkt og símafyrirtækið, en í góðu samkomulagi og samráði við starfsmenn fyrirtækisins var farin sú leið að auka sjálfræði stofnunarinnar enda þótt hún væri áfram ríkisstofnun en tryggja aukin áhrif og ábyrgð starfsmanna. Eftir gaumgæfilegar athuganir, viðræður og samráð varð niðurstaðan sú að reka Post Danmark áfram sem ríkisfyrirtæki en taka þau út af fjárlögum og fella þau undir almenn lög um fyrirtækjarekstur. Með þessu fyrirkomulagi eru starfsmenn áfram ríkisstarfsmenn, líka nýir starfsmenn með þau réttindi og skyldur sem þeirri stöðu fylgja.

Íslenska póstmannafélagið hefur sýnt mikinn áhuga á að fara svipaða leið en því miður hefur ekki verið áhugi hjá íslenskum stjórnvöldum. Það virðist sem hugmyndin um eins manns hlutafélag samgrh. hafi fyllt út í myndina alveg frá upphafi og ekki verið gefið rúm fyrir aðra möguleika. Skýringin er auðvitað sú að endanlega markmiðið er einkavæðing og sú formbreyting sem hér er lögð til auðveldar þá leið. Hún er áfangi sem fara þarf á leiðinni að lokamarkinu. Þess vegna hefur ekki verið nægileg umræða um aðrar leiðir eins og þá sem drepið er á í nefndaráliti minni hlutans sem er sú að gera fyrirtæki að sjálfseignarstofnun með ákveðnar skyldur og réttindi og aukið svigrúm til þess að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi. Það er sem sagt hlutafélag sem alltaf hefur verið markmiðið og ekki að mínum dómi hlustað nægilega á aðrar leiðir.

Það verður sjálfsagt ekki mikil breyting í raun á rekstri Pósts og síma fyrst um sinn þótt þetta frv. yrði að lögum. Meginbreytingin verður að hf. kemur fyrir aftan nafnið og hæstv. samgrh. fær eitt hlutabréf í sína vörslu.

Ég rakti nokkuð í mínu máli þó ég muni það ekki nákvæmlega hvar ég endaði, svo margir dagar eru síðan ég stóð hér, en ég held að ég hafi verið búin að fara nokkuð í það sem mér finnst afar athyglisvert og það er hvernig standa á að upphafi þessa máls, stofnunar og rekstri þessa fyrirtækis því að það er hæstv. samgrh. sem fær mikil völd í sínar hendur. Hann fær þetta hlutabréf. Svo heldur hann eins manns fund til þess að skipa þá nefnd sem lagt er til að undirbúi formbreytinguna vegna þess að það rann upp fyrir mönnum sem margir sáu og bentu á í 1. umr. um þessi mál og hefur ítrekað verið rætt í nefndinni að málið var illa undirbúið og m.a. ótal lausir endar og reyndar fyrst og fremst í sambandi við starfsfólk fyrirtækisins, kjör þess og réttindi. Að loknu starfi þessarar undirbúningsnefndar sem samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að taka aðeins þrjá mánuði boðar hæstv. ráðherra aftur sjálfan sig á fund á þriðja í jólum ef breytingartillögurnar verða samþykktar og þar er það hlutverk hans að skipa hlutafélaginu stjórn sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi. Það er reyndar ekki á hreinu hvenær sá aðalfundur yrði haldinn en svo virðist sem hæstv. samgrh. yrði þar einn í því kaffisamsæti. Ég veit raunar ekki hvað mönnum finnst um þetta fyrirkomulag en mér finnst það ekki eiga mikið skylt við lýðræði og valddreifingu og kannski hefur það ekki verið markmiðið. Ég lýsti þessu reyndar í máli mínu sl. fimmtudag en ég held að ég verði að endurtaka þá lýsingu vegna þess að þetta er afar merkilegt ferli.

Hæstv. samgrh. á einn að ráða öllum stjórnarmönnum sem hann kýs einn með sjálfum sér á þessum merka aðalfundi. Þar fær hann 14 bitlinga að ráðskast með, 7 aðalmenn í stjórn og 7 varamenn. Ég minnist þess að hafa einhvers staðar séð eftir honum haft að hann muni gæta þess að þeir yrðu úr fleiri en einum stjórnmálaflokki og það er því greinilega um pólitíska bitlinga að ræða. Það eru engin skilyrði eða ákvæði um faglega menntun eða reynslu og engin ákvæði sem tryggja áhrif starfsmanna að stjórnum fyrirtækisins. Þarna tel ég að ættu tvímælalaust að koma til skjalanna menn með breiða þekkingu og reynslu á sviði tækni og viðskipta.

Það er líka rétt að geta þess að ýmsir samkeppnisaðilar hafa gert athugasemdir við það hlutverk og vald sem hæstv. samgrh. er falið þar sem hann mun í senn koma fram sem eigandi og stjórnvald. Svo að ég sé ekki að teygja tímann um of vil ég vísa til upphafs ræðu minnar sem ég flutti sl. fimmtudag.

Það er einnig ljóst eftir skoðun og umfjöllun um þetta frv. að umfang Pósts og síma getur breyst verulega undir þessu formi þar sem stjórn félagsins verður heimilt að gera ráðstafanir til þess að stofnunin tengist öðrum aðilum. Heimilt verður að standa að stofnun fyrirtækja eða gerast aðili að öðrum fyrirtækjum, stofna ný félög og gera samninga út og suður. Þá er m.a. stóra spurningin hvað verði um réttindi og kjör starfsmanna Pósts og síma hf. Það er einmitt sú hlið þessa máls sem veldur hvað mestum áhyggjum og er því miður komið enn eitt dæmið nú á þessu þingi þar sem ríkisstjórnin vegur að réttindum og kjörum starfsmanna ríkisins og setur allt líf þeirra og afkomu í óvissu og uppnám.

Póstur og sími er stór stofnun á íslenskan mælikvarða. Starfsmenn eru þar um 2.500 og til fróðleiks má geta þess að um 70% þeirra eru konur. Það er ljóst að við þessa formbreytingu verður breyting á högum þessa fólks. Það er með flest þetta fólk eins og aðra sem vinna hjá ríkinu að það er ekki of sælt af launum sínum. Það eru ekki háar tölur sem sjá má á launaseðlum þessa fólks og engum dettur í hug að öfundast út í það launanna vegna. Láglaunastefna stjórnvalda hefur séð til þess. En þetta fólk eins og aðrir starfsmenn ríkisins hefur notið ákveðinna réttinda sem það hefur talið nokkurs virði og sumir hafa jafnvel öfundað það af. Það hefur notið ákveðins öryggis og ráðningarfestu. Það hefur haft sæmileg réttindi í sambandi við orlof og veikindi, fæðingarorlof og lífeyri og náttúrlega hinn margumtalaða biðlaunrétt sem var hugsaður sem öryggisventill og fæstir höfðu nokkrar áhyggjur af þeim öryggisventli fyrr en stjórnvöld fengu þennan mikla áhuga á einkavæðingu. Þá kom í ljós hvers virði biðlaunarétturinn var. En öll þessi réttindi eru svo sannarlega nokkurs virði og hafa einmitt sætt marga við lág laun sem þeir hafa orðið að búa við árum saman og verður að segjast eins og er þegar um þetta fyrirtæki ræðir að er jafnframt grunnurinn að lágum gjöldum neytenda þessarar þjónustu. Það er staðreyndin.

[11:00]

Um þetta þarf svo sem ekki að segja margt þar sem þetta er nákvæmlega það sem við höfum verið að ræða undanfarna daga í tengslum við frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem stjórnarmeirihlutinn er að breyta og raska einhliða stórum hluta af kjörum fólks án þess að þurfa að bæta því jafnframt á einhvern annan hátt þann skaða sem af þessu hlýst. Þetta er slíkt smámál í augum þeirra sem skipa meiri hlutann á Alþingi að þeir hafa forðast að ræða málið og nánast ekkert haft um það að segja annað en býsnast yfir því hvað stjórnarandstæðingar hafa talað í margar klukkustundir.

Það þótti mikill óþarfi og dæmalaus vitleysa að svo margir þingmenn í stjórnarandstöðunni skyldu leyfa sér að setja sig inn í það mál og reyna að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann á þann eina hátt sem stjórnarandstöðunni er tiltækur. Sú harða barátta sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi í því máli hefur þó ekki verið til einskis. Hún hefur vakið marga til vitundar og umhugsunar um hvað er á ferðinni og hún hefur neytt stjórnarmeirihlutann til þess að skoða nánar mörg atriði frv. og gera á því breytingar. Sjálfsagt mun meiri hlutinn ekki þakka okkur það en hann ætti að gera það því að með því var komið í veg fyrir enn sneypulegri afgreiðslu hv. Alþingis. En fulltrúum stjórnarflokkanna lá á að koma þessu frv. um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á því það hangir saman við það frv. sem við ræðum.

Það er afskaplega skiljanlegt að starfsmenn Pósts og síma séu uggandi um sinn hag. Reynslan frá öðrum löndum er sú að starfsfólki hefur fækkað stórlega. Við höfum t.d. upplýsingar um hvernig tekið var á málum í Noregi þegar símaþjónustan var gerð að hlutafélagi. Þá var raunar stofnuð eins konar stuðningsdeild eða eining innan fyrirtækisis sem hefur m.a. það hlutverk að standa fyrir endurmenntun starfsmanna og aðstoða þá við að leita sér að vinnu. Ekki hefur heyrst að neitt slíkt sé fyrirhugað hér.

Það var upplýst að frá árinu 1992 hefði starfsfólki hjá Telenor AS hjá Noregi verið fækkað um 4--5 þúsund manns eða um 30% en þó hefði engum verið sagt upp. Þegar spurst var fyrir um hvernig þetta kæmi heim og saman voru þær skýringar gefnar að mörgum hefði verið útveguð vinna annars staðar en auk þess hefði starfsmönnum verið boðið upp á að hætta að vinna 60 ára á óskertum lífeyri. Þessar upplýsingar eru frá stjórnendum fyrirtækisins. Íslensk starfssystkini þeirra norsku sögðu okkur þá sögu á á fyrstu sex mánuðum hlutafélagsins hefði 300 manns verið sagt upp störfum og enn væri verið að því. Það er alltént ljóst að félagar innan landssamtaka launþega í Noregi, LO og fleiri, fóru í verkfall í maí 1994 og mótmæltu breytingunum hjá Telenor AS og svipaðar fréttir eru af formbreytingunni t.d. í Danmörku.

Eins og hefur komið fram komu fulltrúar starfsmanna oftar en einu sinni á fund samgn. og skiluðu álitum bæði félaganna svo og lögfræðilegum álitum. Það er alveg ljóst að það er mikill uggur í þessu fólki þar sem réttindi þess og kjör eru í fullkominni óvissu. Aðstaðan er nokkuð misjöfn en allir voru á einu máli um það að þetta mál væri einstaklega illa undirbúið hvað starfsfólkið varðaði og ráðuneytið var engan veginn tilbúið til viðræðna um þau mál og enginn farvegur til þess að ganga frá einu né neinu í þessu efni. Þetta viðurkennir samgn. og skilur og úr þessu er reynt að bæta með breytingartillögum meiri hluta samgn. um starfshóp sem taki á þessum málum og öðrum áður en til breytinganna kemur en eftir að frv. hefur verið samþykkt. Ég hef áhyggjur af því að sá tími sem ætlaður er til þeirra verka sé allt of skammur auk þess sem tíminn er illa valinn. Hann lendir að mestu leyti á sumarleyfistíma og gæti því nýst illa af þeim sökum. Að mínum dómi hefði verið eina rétta að fresta breytingunum og ætla sér betri tíma til þess að ganga frá lausum endum, sérstaklega hvað varðar réttindi starfsfólks.

Ég minni á enn og aftur að hér er um 2.500 starfsmenn að ræða. Ég nefndi áðan að um 70% þeirra eru konur. Ég hef ekki þá tölu handbæra hversu margar þeirra eru fastráðnar en samkvæmt 8. gr. frv. flytja fastráðnir starfsmenn áunnin réttindi með sér yfir í hlutafélagið ef það verður stofnað. Réttindi fastráðinna ríkisstarfsmanna til fæðingarorlofs eru talsvert öðruvísi og betri en á almennum vinnumarkaði, þ.e. hvað greiðslur varðar í fæðingarorlofi og það skiptir því afar miklu máli hvernig farið verður með þessi réttindi. Það er svo aftur annað mál að það er brýnt að breyta því fyrirkomulagi sem gildir um fæðingarorlof. Það þarf að samræma réttindin, samræma og jafna upp á við, hæstv. ráðherra, og ég minni enn einu sinni á tillögu okkar kvennalistakvenna um sérstakan fæðingarorlofssjóð og leiðir til að tryggja það að allir haldi föstum launum sínum í fæðingarorlofi fyrir utan það sérstaka mál að auka hlutdeild feðra í umönnun barna sinna með því að þeim verði gert kleift að taka fæðingarorlof. En það verður að sjálfsögðu ekki gert nema þeim verði tryggð a.m.k. dagvinnulaun þeirra. Það er ljóst að með því fyrirkomulagi sem nú gildir um réttindi fólks til greiðslna í fæðingarorlofi eru þau afar misjöfn og svo verður áfram í því fyrirtæki sem hér er ætlað að koma á fót þótt engan veginn sé ljóst né frágengið hvernig nákvæmlega þau réttindi snerta hvern og einn. Þetta er eitt af þeim atriðum sem verður að ganga tryggilega frá.

Mikill tími og vangaveltur hafa farið í biðlaunaréttinn og fleiri réttindi sem um er að tefla. Einlægast væri kannski í tilvikum sem þessum ef farið verður út í það að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag. Sú skoðun kom fram af hálfu sumra gesta nefndarinnar að biðlaunaréttinn ætti að meta til fjár og greiða opinberum starfsmönnum við tilflutning sem þennan. Þetta væri réttur sem starfsmennirnir hafi greitt fyrir með lægri launum þótt hann þess virði og slíkur öryggisventill að fyrir hann væri nokkru fórnandi. Sú skoðun kom fram a.m.k. af hálfu eins af þeim starfsmannafélögum sem hér eiga hlut að máli að eðlilegast væri að hann væri metinn og hreinlega greiddur út og þá gætu starfsmenn alltént byrjað á sama borði. Þessi hugmynd fékk reyndar ekki mikla umræðu í nefndinni og ég er ekki beint að mæla með henni en hún hefði mátt fá umræðu og athugun.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt enda koma flest rök í þessu máli fram í nefndaráliti minni hluta samgn. en þar kemur réttilega fram að ég hef áheyrnaraðild að hv. samgn. og er samþykk áliti minni hlutans. Það er niðurstaða okkar eftir umfjöllun um þetta mál og viðræður okkar við hina ýmsu aðila sem málið varðar að það sé ekki fullunnið og það sé öldungis óviðunandi að vísa svo miklu verki óunnu til þriggja manna starfshóps eins og lagt er til í brtt. meiri hlutans og ætla honum að hnýta alla lausa enda á aðeins þremur mánuðum. Þess vegna er það niðurstaða okkar að við teljum nauðsynlegt og langeðlilegast að fresta öllum breytingum á stjórnun og rekstrarformi þessarar mikilvægu ríkisstofnunar enn um sinn, fresta þeirri lagasetningu sem er í fæðingu og nota tímann fram á haustið til þess að vinna málið aftur frá grunni.

Í fyrsta lagi þarf að rökstyðja miklu betur að yfirleitt sé nauðsynlegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma frá því sem nú er.

Það þarf í öðru lagi að athuga betur aðra kosti en þann að stofna hlutafélag um þessa starfsemi og ég minni enn á þann kost sem nefndur er í nefndaráliti minni hlutans um sjálfseignarstofnun sem er fyllilega raunhæfur kostur og mörgum þóknanlegri. Það var einmitt upplýst á fundi í hv. samgn. að í dómsmrn. væri verið að vinna að lagasmíð um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri og þess vegna legg ég enn áherslu á að það beri að athuga þennan kost.

Í þriðja lagi þarf að ganga frá aðskilnaði þessara tveggja þjónustuþátta eins og nánast hvarvetna annars staðar er gert. Það þarf að komast að rökstuddri niðurstöðu um þau rekstrarform sem hvorum rekstrarþætti fyrir sig hentaði best.

Í fjórða lagi þarf að gaumgæfa stjórnunarform og þátt ráðherra í því formi með tilliti til eðlilegra og góðra stjórnunarþátta þannig að ekki sé verið að fela hæstv. ráðherra mörg hlutverk sem rekast hvert á annað og skekkja samkeppnisstöðu þess og annarra fyrirtækja en maður skyldi einmitt halda að höfundar þessa frv. og talsmenn þess skyldu vilja hafa slíka hluti í lagi. En hverju er svo sem við að búast af þeim sem vilja breyta stjórnun og ráðslagi á þann veg að einn maður ráði öllu sem hann vill ráða. Einn maður sem er ekki einu sinni faglegur stjórnandi heldur pólitískur ráðherra sem á að halda eins manns aðalfund og ákveða í samráði við sjálfa sig hvaða 14 pólitíska gæðinga hann á að skipa í stjórn hlutafélagsins, 7 aðalmenn og 7 varamenn. Ég held að menn ættu að gefa sér tíma til að athuga þennan gang og kanna hvort ekki er rétt að skilyrða setu í stjórn, t.d. við starf í stofnuninni, fagþekkingu o.s.frv. Loks þarf að fara rækilega yfir öll atriði sem lúta að réttindum starfsfólks, hvaða umhverfi mætir þeim í nýju fyrirtæki og hvernig það er líklegt til að þróast í náinni framtíð og hver verður réttarstaða þess við stofnun dótturfyrirtækja sem heimildir eru fyrir í frv. Að margra áliti felst í rauninni lítið öryggi í þeim fullyrðingum sem birtast í frv. og greinargerð með því þess efnis að fastráðið fólk sé ekki verr sett eftir en áður með réttindi sín.

[11:15]

Að vísu er staðfest að menn geta haldið áfram að greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og haldið áfram að ávinna sér réttindi þar en biðlaunarétturinn er með breyttu formi án þess að það verði með nokkru bætt og önnur réttindi eru í fullkominni óvissu. Fólk er eðlilega uggandi um hag sinn því að það mun mála sannast að þar sem formbreytingar hafa átt sér stað í nágrannalöndum okkar hefur launaþróunin orðið sú að topparnir, forstjórar og aðrir toppar, hafa hækkað í launum en almennir starfsmenn setið eftir og réttindin e.t.v. farin veg allrar veraldar. Niðurstöður nefndarinnar sem samdi þetta frv. þess efnis að það fyrirtæki sem ætlunin er að stofna verði traustari vinnustaður fyrir starfsfólk eins og segir í greinargerð með frv. getur því tæpast átt við aðra en toppana í fyrirtækinu.

Herra forseti. Ég hef eingöngu fjallað um fyrsta málið af þeim þremur sem eru á dagskrá í einu lagi enda það hið stærsta og hin tvö í rauninni aðeins fylgihnettir. Ég ítreka það sem áður er sagt að frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar með það fyrir augum að það verði unnið og undirbúið í samráði við starfsfólk með þau góðu og gildu sannindi að leiðarljósi að gott og ánægt starfsfólk er dýrmætasta auðlind hvers fyrirtækis eins og menn segja stundum á hátíðastundum. Það er einmitt einn mikilvægasti þáttur nútímastjórnunarhátta að leggja alúð við mannlega þáttinn, búa vel að starfsfólki, taka tillit til óska þess og aðstæðna, hlusta á ráð þess, deila með því ábyrgð og í það heila tekið að rækta þann garð sem allir eiga að njóta sameiginlega. Með þessum orðum lýk ég máli mínu að sinni, herra forseti.