Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:19:05 (6722)

1996-05-29 11:19:05# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:19]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta eitt atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. en kannski er ekki við að búast að þingmaðurinn hafi kunnugleika á þeim þætti málsins. Samgrn. og Póstur og sími hafa lagt mikla rækt við það að eiga samvinnu við starfsfólk Pósts og síma um undirbúning að málinu og er raunar unnið í nokkrum hópum og ég veit ekki betur en það starf hafi gengið mjög vel. Ég hygg að ekki séu mörg dæmi um það að jafnmikil áhersla hafi verið lögð á að hafa góða samvinnu við starfsfólk og við þær breytingar sem hér eru undirbúnar. Kannski er ekki von að hv. þm. hafi verið þetta kunnugt.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að í öðru orðinu talaði hv. þm. um nauðsyn þess að formbreyting yrði á starfsemi Pósts og síma og mælti sérstaklega með sjálfseignarfélögum í því sambandi. Ég minni á að öll frestun á þessu máli er samkeppnisaðilum til góða, erlendum, fjölþjóðlegum símafyrirtækjum sem stefna að samkeppni við Póst og síma hér heima strax 1. jan. 1998 en þau íslensku fyrirtæki sem hafa verið að undirbúa sig undir þessa samkeppni eru m.a. fjölmiðlafyrirtæki og enginn vafi á því að það mundi styrkja stöðu þeirra ef það tækist að drepa þessu máli á dreif.