Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:37:13 (6728)

1996-05-29 11:37:13# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:37]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef séð tillögu hv. þingmanna Ragnars Arnalds, Guðmundar Árna Stefánssonar og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur en ég vísa í rök mín í ræðu minni áðan að þetta ákvæði á betur heima í fjarskiptalögum þar sem það á þá við öll þau fyrirtæki sem koma til með að starfa á þessu sviði. Í öðru lagi eru það mjög sterk rök að fyrirtæki þurfi ákveðinn aðlögunartíma og þegar hefur verið ákveðið að breyta gjaldskrársvæðum í tvö sem hefur mikil áhrif á þann hátt að þá sést hver þróunin verður í tekjuöflun fyrirtækisins og ákveðin aðlögun á sér stað að þessu umhverfi. Ég held að tillaga hv. þingmanna minni hlutans sé því ekki raunhæf og hafi hreinlega ekki verið sett fram með því hugarfari.