Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:41:58 (6731)

1996-05-29 11:41:58# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, MS
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:41]

Magnús Stefánsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum stórt mál í dag og hefur það farið í gegnum hv. samgn. og verið rætt þar ítarlega. Formaður samgn., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, gerði grein fyrir breytingartillögum og nefndaráliti meiri hlutans fyrr við umræðuna og ætla ég ekki að endurtaka það í smáatriðum.

Þessar breytingartillögur hafa komið fram m.a. vegna athugasemda frá hagsmunaaðilum sem og nefndarmönnum jafnt í meiri hluta sem minni hluta og þar eru einmitt dæmi um það að mál sem fara í gegnum nefndir taka oft og tíðum og jafnvel oftast nær einhverjum breytingum í nefndarstarfi.

Þetta mál snýst í megindráttum um fjögur atriði:

1. Rekstrarform Pósts og síma.

2. Eignarhaldið.

3. Starfsmannamálin.

4. Gjaldskrármál sem tengjast frv. um fjarskiptalög.

Það hefur komið fram fyrr í máli mínu að ég hef talið nauðsynlegt að gera breytingar á rekstrarformi Póst- og símamálastofnunar. Helstu rök eru þau að ég tel mjög óeðlilegt að ríkisstofnun sem hefur jafnmikla fjárhagslega veltu og Póstur og sími, sem er um 10--12 milljarðar á ári og starfar að verulegu leyti á samkeppnismarkaði, skuli vera rekin samkvæmt því rekstrarformi sem verið hefur, þ.e. fyrirtækið hefur póst- og símamálastjóra sem er forstjóri fyrirtækisins, heyrir undir ráðherra og Alþingi.

Að sjálfsögðu koma ýmsar leiðir til greina við breytingar sem við ræðum hér og við höfum farið í gegnum það fyrr í þessari umræðu, jafnt í þessum sal eins og í samgn. En niðurstaðan er sú að breytingin verði í þá veru að Póstur og sími verði rekinn samkvæmt hlutafélagaformi og um það snýst það frv. sem hér liggur fyrir.

Með þessari breytingu mun Póstur og sími verða mun hæfari til samkeppni en verið hefur. Þetta hefur allt verið rakið og vitna ég til ræðu formanns samgn. í því efni þar sem hann fór yfir þau rök sem málinu fylgja.

Nágrannalönd okkar hafa farið ýmsar leiðir í þessum efnum en flest þeirra hafa þegar breytt rekstrarformi póst- og símastofnana sinna. Vitnað hefur verið til þess í umræðunni að eðlilegt hefði verið að gera póstinn að sjálfseignarfyrirtæki og nokkurs konar ríkisfyrirtæki og þar er gjarnan vitnað til Danmerkur og Noregs í því sambandi og fóru þeir sannarlega slíkar leiðir. En ég hef þær upplýsingar að þar sé nú þegar komin sú umræðu að ganga enn lengra á þeirri braut og jafnvel breyta póstfyrirtækjum í þessum tveimur löndum í hlutafélög. Þessi mál eru á fleygiferð alls staðar í kringum okkur og því er það mjög rökrétt að við fjöllum um þau hér.

[11:45]

Þá er það eignarhaldið. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að hlutafélagið Póstur og sími verði alfarið í eigu ríkisins og að samgrh. fari með eignarhaldið. Að sjálfsögðu mjög eðlilegt að svo sé því að þessi mál heyra undir samgrn.

Í frv. er skýrt tekið fram að ekki sé heimilt að selja hlut úr fyrirtækinu nema samkvæmt heimild Alþingis og það sé eingöngu Alþingi sem getur heimilað slíkt. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt. Rök þeirra sem eru andvígir þessari leið eru þau að þetta sé einungis fyrsta skref í því að selja fyrirtækið eða jafnvel gefa það eins og sumir orða það en þarna er sem sagt tekið á því að það er Alþingi sem fer alfarið með þetta mál.

Að sjálfsögðu getum við ekki fullyrt um það hér hvort einhvern tíma í framtíðinni muni koma að því að Alþingi taki þá ákvörðun að selja hlut úr fyrirtækinu. Ég held að hvorki ég né nokkur annar hér geti fullyrt það. En jafnframt má benda á að enginn getur fullyrt að ekki kæmi til þess einhvern tíma í framtíðinni þótt þessari stofnun væri ekki breytt í hlutafélag nú og jafnframt selt um leið þannig að þetta er auðvitað allt eins og það er og erfitt að spá fram í tímann í þessum efnum.

Kveðið er á um það í breytingartillögum að sérstök undirbúningsstjórn skuli fara með undirbúningsvinnu að stofnun fyrirtækisins og gert er ráð fyrir að hún verði þriggja manna. Ég geri ráð fyrir að það sé fyllilega eðlilegt að sérstökum aðila sé falið að framkvæma þann löggjörning og annað sem til þarf til þess að undirbúa stofnun fyrirtækisins og koma því til rekstrar.

Ég tel einnig eins og kom reyndar fram hjá formanni samgn. í framsögu hans að mjög eðlilegt sé að þingið komi að málum og fylgist með því hver framvinda þessa undirbúnings verður á haustmánuðum. Ég tel að samgn. ætti t.d. að hafa aðgang að því að fylgjast með þeim málum þannig að þingmenn og Alþingi eigi kost á því að fylgjast með málinu. Síðan mætti spyrja sig að því hvort ekki væri eðlilegt að hæstv. samgrh. geri þinginu grein fyrir því á síðari stigum hvernig þessi mál hafi farið fram.

Þá eru það starfsmannamálin. Það er eitt allra stærsta málið í þessu sambandi að réttindi starfsmanna séu tryggð og þeirra hagur sé tryggður. Það hefur komið fram í umræðunni að gert er ráð fyrir því að starfsmenn haldi lögbundnum réttindum og jafnframt er gert ráð fyrir því, og er þar vitnað í sérstök lög sem eru nr. 77/1993, að starfsmenn haldi öllum kjarasamningsbundnum réttindum við þessi aðilaskipti. Ég ætla ekki fjölyrða um þessi mál. Þetta hefur allt komið fram áður í umræðunni en ég vitna til þess að við teljum að réttindi starfsmanna séu tryggð eins og mögulegt er að gera við þessar aðstæður. Að sjálfsögðu mun koma til þess að starfsmenn fyrirtækisins semji við vinnuveitanda sinn eins og gerist og gengur, bæði á almennum markaði og hjá starfsmönnum ríkisins þannig að þetta er allt saman samkvæmt eðlilegum nótum.

Virðulegi forseti. Þetta eru í megindráttum þau mál sem tengjast frv. Síðan er komið að fjarskiptafrv. þar sem um er að ræða gjaldskrármálin. Yfir þau mál hefur verið farið ítarlega og það er tillaga frá meiri hluta samgn. að sú breyting verði gerð við fjarskiptalögin að frá 1. júlí 1998 verði landið eitt gjaldsvæði. Jafnframt kemur það fram að í byrjun júní verði gjaldflokkum fækkað úr þremur í tvo þannig að þar verður um að ræða verulega lækkun á símkostnaði hjá stórum hluta landsmanna í dreifbýlinu. Þetta er baráttumál sem menn hafa rætt í mörg ár, bæði hér og eins út um allt land og er það mikið ánægjuefni að nú horfir til loka í þeirri baráttu og við sjáum fram á að landið verði gert að einu gjaldsvæði þar sem allir landsmenn munu sitja við sama borð hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Að lokum þakka ég samnefndarmönnum mínum í samgn. fyrir málefnalega umræðu um þessi mál. Ég hrósa bæði stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum fyrir það. Ég tel að þessi mál hafi veri rædd mjög málefnalega, bæði í nefnd og í þingsal og tel ég það mjög til fyrirmyndar og ég vonast til þess að svo verði áfram þannig að hagsmunir allra aðila sem koma að málinu verði sem best tryggðir.