Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 15:22:08 (6748)

1996-05-29 15:22:08# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[15:22]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar af minni hálfu gefur ekki tilefni til mikilla ýfinga. Auðvitað geta menn haft sínar skoðanir á framhaldinu. Það er að sjálfsögðu matsatriði. Framtíðin verður að leiða það í ljós hvaða árangur við höfum af þessari breytingu.

Hitt held ég að sé þá e.t.v. einhver misskilningur á milli mín og hv. síðasta ræðumanns að það sé eitthvað sérstakt sem beri þá orðið á milli heldur í sambandi við byggðaskattinn sem ég kalla svo sem hefur verið þáttur í skattheimtunni í gegnum símaþjónustuna. Nú hefur hv. ræðumaður upplýst að hann sjái ekki á eftir skattinum, hann hafi einungis verið að vara við því að hann færi ekki í vasa einhverra nýrra eigenda Pósts og síma. Þá vil ég einungis segja í lokin það sem ég hef reyndar sagt áður, þ.e. að greiðslur til samneyslunnar eða til ríkissjóðs fara eftir því sem gerist um önnur hlutafélög. Símgjöldin, sem eru grundvöllur að slíkum greiðslum, eru enn háð ákvörðun eða samþykkis samgrh.