Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 15:42:03 (6755)

1996-05-29 15:42:03# 120. lþ. 151.10 fundur 533. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (gjaldflokkar fólksbifreiða) frv. 48/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[15:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er eins og aðrir nefndarmenn í efh.- og viðskn. einn af flm. þessa frv. og styð það að sjálfsögðu. En ég vil gera stuttlega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í mínum þingflokki í umræðum um málið og mínum viðhorfum til þess. Ég held að rökin fyrir þessu frv. liggi nokkuð ljós fyrir og hafa komið fram. Þau eru að mínu mati aðallega þrenns konar, þ.e. í fyrsta lagi umferðaröryggissjónarmið. Það hefur verið áhyggjuefni manna um alllangt skeið að sú flokkun og mikla mismunun í vörugjaldstöku sem við lýði hefur verið undanfarin ár hafi gengið of langt í þeim efnum að ýta bílaeign niður í smábíla sem af umferðaröryggisástæðum eru ekki jafntraustir og bílar í millistærðarflokki eða þar yfir. Það er ljóst t.d. að fjölskyldur kaupa í stórum stíl veigaminni bíla en ella og búna minni öryggistækjum en bílar í stærri stærðarflokkum, ekki síst vegna þess verðmunar sem myndast vegna ólíkrar álagningar vörugjalda. Úr þessu vilja menn bæta með því að hækka nokkuð viðmiðunarmörkin fyrir þá bíla sem í lægsta gjaldflokknum eru.

Ég átti sæti í undirbúningsnefnd til samningar svonefndrar umferðaröryggisáætlunar fyrir nokkru síðan og þá var þetta atriði sérstaklega rætt og skoðað af hálfu nefndarinnar og á það bent strax í áliti nefndarinnar sem liggur fyrir á þessu þingi í formi þáltill. að að þessum þætti þyrfti að huga.

Í öðru lagi hefur Umferðarráð ítrekað ályktað um þetta efni og nú síðast hefur Félag ísl. bifreiðaeigenda sent frá sér álit af sama toga.

Í öðru lagi eru röksemdirnar þar með fjölskyldupólitísks eðlis. Það er ljóst að stærri fjölskyldur, barnmargar fjölskyldur sem hafa orðið að kaupa stærri bíla til að rúmast í einni bifreið hafa sjálfkrafa orðið að kaupa bíl í hærri gjaldflokkum þar sem slíkir bílar finnast ekki í lægsta gjaldflokknum.

Í þriðja lagi hafa verið færðar fram og með réttu röksemdir af því tagi að að breyttu breytanda er þessi gjaldtaka íþyngjandi fyrir landsbyggðina umfram það sem annars staðar er af þeirri einföldu ástæðu að stærri og aflmeiri bifreiðar og fjórhjóladrifnar bifreiðar eru þar til muna algengari en í þéttbýlinu. Á það ekki síst við um stærri dísilbifreiðar sem eru mjög algeng samgöngutæki og atvinnutæki úti á landsbyggðinni. Þessar þrjár röksemdir eru fyrir mér veigamestar, herra forseti.

[15:45]

Ég er hins vegar ekki sérstakur talsmaður þeirra sjónarmiða að stjórnvöld geti ekki haft gjaldtöku af mismunandi toga ef efnisleg rök standa fyrir því. Ég tek skýrt fram að það sem sumir kalla óæskilega og jafnvel óleyfilega neyslustýringu að ég geng ekki fyrir slíkum röksemdum. Ég tel að stjórnvöld hafi fullkomlega vald til þess og geti með efnislegum rökum haft gjaldtöku af þessu tagi mismunandi svo fremi sem hún sé sanngjörn og endurspegli einhver viðurkennd markmið sem menn eru þar með að ná fram. Að sjálfsögðu er eðlilegt að menn hvetji til orkusparnaðar og þess að hófsemda sé gætt í sambandi við slíkt og jafnframt er eðlilegt að reynt sé að taka tillit til þess í gjaldtökunni að auðvelda venjulegum fjölskyldum að eiga sinn fjölskyldubíl. Ég lít alls ekki svo á að með þessu frv. sé á nokkurn hátt verið að hverfa frá þeim sjónarmiðum heldur eru á ferðinni lagfæringar varðandi þessi hlutföll vegna þess að það er orðið ljóst að menn voru komnir út í vissar ógöngur hvað varðaði þessa gjaldtöku.

Ég vil geta þess að í umræðum um þetta mál í þingflokki okkar koma að sjálfsögðu fram ýmis sjónarmið sem vörðuðu það hvort menn hefðu í þessum tillögum frá efh.- og viðskn. endilega hitt á réttu viðmiðunarmörkin. Að sjálfsögðu má deila um það hvar eigi að draga mörkin varðandi hinn venjulega fjölskyldubíl eða millistærðarbíl, sem menn eru sammála um að hafa í lægsta gjaldflokki, og ég held að það verði sjálfsagt seint fundin þar ein viðmiðun sem allir verða sáttir við en væntanlega er eðlilegast að miða við vélastærð einhvers staðar á bilinu 1.600--1.800 rúmsentimetrar. Væri farið í efri mörkin og miðað við 1.800 rúmsentimetra er nokkuð ljóst að allar venjulegar miðlungsfólksbifreiðar slyppu undir þau viðmiðunarmörk og þar með talsvert af fjórhjóladrifnum fimm og jafnvel sjö farþega bifreiðum en þá er ljóst að tekjutap ríkissjóðs yrði væntanlega allmiklu meira en reiknað er með að leiði af staðfestingu þessa frv. sem færir mörkin eingöngu úr 1.400 í 1.600 rúmsentimetra.

Einnig má spyrja hvort ekki hefði verið eðlilegra að láta einhverja lækkun koma til framkvæmda á alla flokkana upp í 2 lítra eða 2,5 lítra vélarstærð í stað þess að lækkunin er öll lögð til í því formi að viðmiðunarmörkin eru hækkuð sem leiðir til þess að bílar í vissum stærðum lækka ekki heldur kemur lækkunin fyrst og fremst fram í gegnum það að viðmiðunarmörkin hætta. Þetta eru allt sjónarmið sem eiga sín rök fyrir sér og ég tek fram að við lítum ekki svo á að með þessu máli hafi menn fundið hinn endanlega sannleika í þessum efnum. Það er eðlilegt að þessi mál verði áfram til skoðunar út frá þeim umferðar-, öryggis- og fjölskyldusjónarmiðum sem ég hef reifað enda segir mér svo hugur um að það muni verða sjálfkrafa á dagskrá á næstu árum.

Með vísan til þessa, herra forseti, er ég stuðningsmaður þess að frv. nái afgreiðslu og verði lögfest.