Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:15:45 (6763)

1996-05-29 16:15:45# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það liggur í fyrsta lagi fyrir að heildarsamtök launamanna í landinu leggjast algerlega gegn þessu máli. Í öðru lagi liggur fyrir að þetta mál hefur nú þegar stórspillt andrúmsloftinu í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og mun ef lögfest verður hafa áhrif til hins verra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í aðdraganda komandi kjarasamninga. Í þriðja lagi liggur fyrir að þetta mál er langt í frá að vera fullunnið af hálfu Alþingis. Í fjórða lagi eru á þessu máli beinir tæknilegir og efnislegir ágallar sem hafa ekki verið lagfærðir. Það er því alveg ljóst að Alþingi á þann kost vænstan að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Í raun lít ég svo á að hér sé á ferðinni síðasta tækifæri til þess að forða slysi, til þess að afstýra því að andrúmsloft þessara aðila eitrist með þeim hætti sem ella blasir við til þess að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar nái áttum og öllum sé því fyrir bestu að málinu sé vísað frá og sumarið notað til þess að koma á nýjan leik á stjórnmálasambandi milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. Ég hvet menn því eindregið til þess, herra forseti, að nota tækifærið og vísa málinu kurteislega frá.