Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:22:35 (6768)

1996-05-29 16:22:35# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þegar þessi 1. tölul. breytingartillagna meiri hlutans á þskj. 1057 kemur til atkvæða vil ég gera grein fyrir því að við munum sitja hjá við atkvæðagreiðslur um þessar brtt. Það er ljóst að þær breyta í fæstum tilvikum miklu um efni frv. Það er eftir sem áður algerlega óaðgengilegt af okkar hálfu og við getum ekki mælt með framgangi þess.

Breytingartillögur í 19 töluliðum við 2. umr. og nú við 3. umr. í 16 töluliðum eru fyrst og fremst til marks um það að sú gagnrýni sem fram var borin í upphafi á frv. var réttmæt. Það var illa unnið og óvandað og enn liggur fyrir að á því eru fjölmargir tæknilegir og efnislegir ágallar sem gera það að verkum að það er óafgreiðsluhæft. Þannig held ég, herra forseti, að það þurfi ekki frekari vitna við en þeirra að vísa til þessara breytingartillagna.

Við munum með einni undantekningu, sem gerð verður grein fyrir síðar þar sem er 13. tölul. brtt., sitja hjá við atkvæðagreiðslur þar sem þær breyta ekki eðli málsins.