Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:28:37 (6771)

1996-05-29 16:28:37# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er margt að í frv. en einni grein er ég alveg sérstaklega mikið á móti og það er 4. tölul. brtt. Samkvæmt þessu eru prestar þjóðkirkjunnar látnir sæta því að þurfa að verða endurráðnir á fimm ára fresti. Ég veit ekki hvað þeir hafa til saka unnið til að eiga þetta skilið né heldur hvað þjóðin hefur til saka unnið að eiga yfir höfði sér deilur um prestsráðningar á fimm ára fresti.

Herra forseti. Það liggur fyrir að hinn ágæti formaður Prestafélagsins hefur sagt að þetta brjóti í bága við Ágsborgarjátninguna og hann hefur jafnframt sagt að þetta vegi að guðskristni í landinu. Sjálfstfl. fór einu sinni í kosningabaráttu þar sem eitt helsta baráttumálið var einmitt að efla guðskristni.

Herra forseti. Ég get ekki annað heldur en mótmælt þessu harðlega fyrir hönd prestanna í landinu og mun greiða atkvæði gegn þessu.