Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:29:30 (6772)

1996-05-29 16:29:30# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:29]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Að mínum dómi er 22. gr. meginmál þessa vonda frv. Hér hefur að vísu verið orðið við þeirri miklu gagnrýni sem beindist ekki síst gegn þessari grein vegna þess að eins og frv. var lagt fram fól það í sér brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og braut í bága við marga þá alþjóðasáttmála sem við höfum staðfest og erum aðilar að þannig að það hefur a.m.k að hluta til verið orðið við þeirri gagnrýni.

En ég vil eins og aðrir víkja að 4. lið brtt. og mótmæla því að prestar þjóðkirkjunnar skuli vera taldir upp vegna þess að þó að menn bregðist við með öðrum lögum þýðir þetta að í það minnsta næstu mánuði verða prestar ráðnir til fimm ára í senn. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þetta mál og það einfaldasta hefði að sjálfsögðu verið að fella þá út úr frv. á meðan menn eru að skoða önnur lög sem þarf að breyta til samræmis.