Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:05:07 (6791)

1996-05-29 17:05:07# 120. lþ. 151.5 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[17:05]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fór fram um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga um byggingu heimavistar og ég lýsti andstöðu minni við vil ég segja að ég hef átt viðræður við hæstv. menntmrh. um þetta mál. Í umræðum í gærkvöldi sagði hæstv. ráðherra m.a. að hann væri reiðubúinn til þess að láta gera heildarúttekt á þörf fyrir aukið heimavistarrými, efna til málþings um málið til að átta sig á því hvaða leiðir eru skynsamlegastar á hverjum stað til að fjármagna byggingu heimavista. Einnig sagðist hann ætla að nýta sér þá heimild sem fram kemur í greinargerð með frv. sem er þess eðlis að unnt er að semja sérstaklega við einstök sveitarfélög um kostnaðarþátt.

Ég treysti því að hæstv. menntmrh. standi við orð sín og ásættanleg lausn finnist á þessu máli. Því segi ég nei við þeirri tillögu sem hér er til afgreiðslu.