Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:09:03 (6794)

1996-05-29 17:09:03# 120. lþ. 151.5 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[17:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að þetta sé meingallað frv. sem er á dagskrá og óþarft því að hægt er að gera flest ef ekki allt það sem til stendur innan ramma gildandi framhaldsskólalaga og frv. er ákaflega metnaðarlítið ef ekki metnaðarlaust af hálfu hæstv. menntmrh.

Við 3. umr. var áðan felld brtt. okkar nokkurra þingmanna um að ríkissjóður mundi áfram kosta byggingu heimavista að fullu. Þetta atriði var talsvert til umræðu við 2. umr. málsins og þá stigu í pontu hugumstórir stjórnarþingmenn og sögðust ekki vilja una því óréttlæti að ríkið hætti að taka þennan kostnað á sig að fullu.

Þeir hafa nú allir með tölu lekið niður við atkvæðagreiðslu í málinu og handjárnin reynst yfirsterkari sannfæringunni og röksemdum þeirra frá 2. umr. Þetta er harla dapurlegt, herra forseti, og enn síður ásættanlegt að samþykkja frv. í ljósi niðurlægingarinnar í atkvæðagreiðslunni áðan varðandi þennan þátt málsins. Ég greiði því ekki atkvæði.