Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 10:28:52 (6805)

1996-05-30 10:28:52# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[10:28]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að félmrh. hafi ekki komið mikið nálægt þeim deilum. Þar er annað á ferð og allur aðdragandi málsins og þingsins hverfur ekki og spurningar um verkaskiptingu og annað slík hverfur ekki þó að menn séu í deilum á öðrum vettvangi.

Hvað varðar fyrstu spurninguna er einfaldlega búið að storka verkalýðshreyfingunni mjög illilega og setja henni stólinn fyrir dyrnar og grípa inn í innra skipulag verkalýðsfélaganna í landinu sem þau telja mjög alvarlegt mál og munu þess vegna bregðast við þó að ég trúi ekki öðru en að þau láti meginhagsmuni félagsmanna sinna ráða för. En það að hafa vald á samningaferlinu, það að hafa réttinn til þess að semja, réttinn til þess að boða verkföll er grundvallaratriði í kjarabaráttunni.

Hvað varðar þessar viðræðuáætlanir var það ein af fáum góðum hugmyndum sem var í upphaflegu frv. En eins og útfærslan er þá held ég að þetta verði því miður nánast óframkvæmanlegt því að hugmyndin var sú að það væru hinir stóru aðilar sem væru með samningamálin í sínum höndum. Þannig var þetta allt byggt upp með tengingarreglunni og öllu því. En eins og málin hafa þróast þýðir þetta einfaldlega það að hvert einasta félag, jafnvel einstakar deildir innan félaga, þurfa að gera viðræðuáætlanir. Eins og þingmaðurinn minnist eflaust spurði fulltrúi Vélstjórafélags Íslands um hvað ætti að ræða á meðan menn væru að bíða eftir línunni. ,,Ideen er god nok`` eins og maður segir á dönsku og hún gengur vel einmitt ef menn eru í svona samfloti. En það að skylda hvert einasta félag til að fara út í viðræðuáætlun skapar að mínu mati kaos, því miður. Hvað varðar sæmilega virk stéttarfélög þá held ég í raun og veru að þessir þröskuldar muni ekki trufla þeirra starfsemi, enda er það ekki mergurinn málsins. Málið er það að hér er löggjafinn að grípa inn í og setja stéttarfélögunum reglur sem þau eiga að setja sér sjálf af því að þetta eru frjáls félagasamtök. Rétt eins og íþróttahreyfingin, kirkjufélög, eða hvað ég á að nefna, setja sér sínar reglur. Þau hafa gert það í meira en hundrað ár hér á Íslandi og ég kannast ekkert við að það hafi valdið miklum erfiðleikum. Eins og ég rakti hér áðan, hæstv. forseti, felast stærstu vandamál vinnumarkaðarins ekki í innra skipulagi verkalýðshreyfingarinnar.