Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:13:59 (6809)

1996-05-30 11:13:59# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að ráðherra hefði komið fram með frv. sem hefði stangast á við ILO. Það er einmitt hlutverk þingsins og nefndanna að leiðrétta slíkt og fá fram umsagnir frá aðilum sem málið varðar. Við fengum mjög vandaða lagalega umsögn um þetta og hún leiddi þetta í ljós. Hún leiddi í ljós að það var vafi á að þetta stæðist þessa samninga og þar af leiðandi lagði hv. félmn. til, og hæstv. ráðherrann að sjálfsögðu féllst á það, að þetta yrði fellt út. En þetta er einmitt vandinn. Vandinn í verkalýðshreyfingunni og vandinn með launajöfnunina felst í því að vissir hópar í krafti þess hvað þeir valda miklu tjóni með verkföllum, fá mjög há laun. Það er beint samband milli þess tjóns sem menn valda með verkfalli og þeirra launa sem þeir fá. Þetta er hreinlega gallinn við verkfallsréttinn og þetta sýnir hvernig hann getur snúist upp í andhverfu sína og valdið launamisrétti í stað þess sem hann var upphaflega ætlaður til, þ.e. að hjálpa þeim sem verst hafa kjörin. Þetta þurfa menn einhvern veginn að leysa. Ég sé því miður enga lausn á því. Tengireglan var talin vera lausn á þessu. Hún reyndist ekki duga til þess.

Hv. þm. sagði að það væri grá þoka á bak við ríkisstjórnina. Mér finnst það ekki sýna mikla virðingu fyrir mér sem þingmanni og stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar eða þá kjósendur sem kusu stjórnarflokkana. Ég veit ekki hvort hv. þm. átti við mig sem gráa þoku eða alla þá tugi þúsunda kjósenda sem kusu þessa tvo flokka.