Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:13:13 (6822)

1996-05-30 12:13:13# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:13]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur vakti mér mikla undrun. Hún lýsti því svo fjálglega hvað stjórnarandstaðan og minni hluti félmn. hefði staðið sig vel, en svo þegar kom að meiri hlutanum og þeirra fulltrúum í hv. félmn. höfðu menn enga aðra sannfæringu en þá að hlýða ríkisstjórninni og ýta á græna takkann.

Ég verð að lýsa furðu minni á svona málflutningi og mótmæla honum sem hreinum og klárum misskilningi, svo ekki sé meira sagt. Ég veit að þingmenn og fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. hafa allir tekið þátt í þessari umræðu, ég t.d. bæði við 1. og 2. umr. Ég taldi reyndar umræðunni lokið eftir 2. umr. því að málið fór ekki aftur til nefndar.

Í öðru lagi get ég fullyrt að þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki tamið sér það í þessum umræðum að vera með málþóf, vera með lestur upp úr lögfræðibókum eða lestur upp úr sögubókum einungis til þess að tefja tímann og draga málið á langinn. Menn hafa fyrst og fremst verið í mjög málefnalegri umræðu þegar það hefur þótt við hæfi. Ég fullyrði að allir fulltrúar meiri hlutans á Alþingi í félmn. hafa unnið af miklum heilindum og unnið vel, ekki bara í nefndinni sem slíkri heldur líka sem meirihlutafulltrúar með hæstv. félmrh. og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins til þess að koma tillögum fram í þinginu sem gætu orðið til bóta á því frv. sem hæstv. félmrh. lagði fram. Því vil ég mótmæla slíkum málflutningi, bæði af hálfu hv. síðasta ræðumanns og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, sem var með svipaðan málflutning áðan.

Ég hef lýst því yfir og stend við það að verkalýðshreyfingin má vel una við það frv. sem lagt var hér fram. Það mun auka lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar, það mun tryggja að almennir félagar mæta til þess að greiða atkvæði um verkfallsboðanir en séu ekki þvingaðir í verkföll af fáeinum félögum sem jafnvel er smalað saman á staðinn.