Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:16:05 (6823)

1996-05-30 12:16:05# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:16]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja það eins og er að sannfæringu stjórnarliðanna var ekki lýst í löngu máli undir umræðunum. Það voru einhverjir sem tóku til máls en sannfæringarkrafturinn var alla vega ekki í löngu máli í þingsölum og það þarf ekki annað en fara yfir það hverjir töluðu. (KPál: Hann fer ekki eftir lengd ræðunnar.) Hann fer ekki eftir lengd ræðunnar, hv. þm., en hins vegar vil ég benda á að hér var ekki um málþóf að ræða um stéttarfélög og vinnudeilur og það var full ástæða til þess að lesa úr lögfræðibókum fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn sem leggur í upphafi fram frv. sem stenst hvorki ákvæði alþjóðasamþykkta né ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er því full ástæða til þess, hv. þm. Kristján Pálsson, að lesa upp úr lögfræðiritum fyrir ykkur.

(Forseti (ÓE): Hv. þingmenn verða að muna eftir ákvæðum þingskapa um ávörp. Það á ekki að ávarpa þingmenn í beinni ræðu svona.)