Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:18:22 (6825)

1996-05-30 12:18:22# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:18]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hver er í fýlu núna, það má deila um það. En ég vil benda á að strax við 1. umr. um þetta mál var benti stjórnarandstaðan á fjölmörg atriði, efnisleg atriði sem reyndar voru sum hver tekin til greina eftir að Lagastofnun Háskóla Íslands hafði gefið álit sitt. Ekki fyrr. Ég vil því alls ekki taka undir þá fullyrðingu hv. þm. Kristjáns Pálssonar að hér hafi ekkert komið fram sem skiptir máli.

Sú umræða sem hefur farið fram hefur líka snúist um pólitík. Það er líka hlutverk okkar hér að ræða svolítið um pólitík og ég hef saknað hennar af hálfu stjórnarliðsins. En væntanlega hefur mál mitt verið óskýrt ef hv. þm. skildi það svo að ég væri gera lítið úr félögum mínum í félmn. þegar ég talaði um að stjórnarliðar hefðu ekki tekið þátt í þessu starfi af fullri einlægni. Það var ekki ætlun mín að beina þessari gagnrýni að þeim heldur fyrst og fremst að öðrum óbreyttum stjórnarliðum.