Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:29:32 (6832)

1996-05-30 12:29:32# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur margsinnis komið fram í þessari umræðu að það er ekkert verið að binda verkalýðshreyfinguna með þessum lögum. Það er alls ekki verið að gera það. Það er ekki verið að brjóta nokkurn skapaðan hlut á félagafrelsi að nokkru leyti. Þau atriði sem gagnrýnd voru í upphafi þegar frv. var lagt fram hafa verið felld á brott. Ég spurði einmitt í ræðu minni: Hvernig stendur á því að þegar öll efnisatriði sem gagnrýnd voru í upphafi eru farin, er samt eins og ekkert hafi gerst? (Gripið fram í.) Í upphafi ræðu minnar við 1. umr. taldi ég upp fjögur efnisatriði. Ég hafði komist að því í samræðum við fjölmarga forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hvað það var sem þeir vildu breyta og hvað þeir voru óánægðir með. Öll þau atriði eru nú horfin úr frv.