Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:31:23 (6834)

1996-05-30 12:31:23# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:31]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr enn og aftur: Hvað er þá eftir þegar efnisatriðin eru farin út sem voru gagnrýnd? Hvað er þá eftir? Ég hef áður látið að því liggja hér í ræðu að ég tel að þetta sé á misskilningi byggt. Hér er um stolt manna að ræða, hver á að ráða og hver á að setja lög. Á Alþingi að gera það eða á einhver annar að gera það? Það er líka misskilningur ef einhver lætur sér detta í hug, þrátt fyrir ágreining um einhverja lagasetningu, að þeir tímar komi á Íslandi að menn fari að hefna þess í héraði sem hallast á Alþingi. Ég trúi því ekki, herra forseti. Það hvarflar ekki að mér því ég veit að aðilar munu koma til samninga vegna sameiginlegra hagsmuna, vegna hagsmuna launþega og atvinnufyrirtækja. Þess vegna munu þeir koma með opnum huga og vinna sína vinnu eins og þeir hafa gert.