Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:02:02 (6835)

1996-05-30 13:02:02# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér finnst satt að segja nokkurt umhugsunarefni að hlýða á málflutning stjórnarsinna hér í dag. Það er eins og þeir hafi ekki botnað neitt í því af hverju verkalýðsfélögin á Íslandi hafa snúist gegn þessu frv. Það er eins og þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því að það er fyrst og fremst aðferðin og vinnubrögðin sem hafa kallað yfir þjóðina og þingið og ríkisstjórnina þessi gífurlegu mótmæli, það eru sérstaklega vinnubrögðin. Menn telja að það geti verið hættulegt fyrir þróun mála í framtíðinni, fyrir kjaramál, efnahagsmál, atvinnumál og fleira, að ríkisstjórn komist upp með að haga sér svona gagnvart verkalýðshreyfingunni. En þetta er búið að segja, það er alveg rétt hjá hv. þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa verið að kvarta undan okkur meira og minna í allan morgun. Þeir hafa komið hér grátandi hver á fætur öðrum í ræðustólinn. Það er alveg rétt hjá þeim að í raun og veru virðist málið liggja þannig að það hríni ekkert á þeim í þessum efnum og þeir neita að hlusta á þessar alvarlegu röksemdir. Þeir neita að hlusta á það að sú hætta er fyrir hendi að þessi vinnubrögð hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar. Þeir neita að hlusta á það. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem ætti að vita betur, hleypur hér upp með skæting í morgun og segir: ,,Þetta er bara eins og lögin 1938``. Þetta er ekki eins og lögin 1938. Þá var það þannig að meiri hluti verkalýðsfélaganna í landinu studdi lögin 1938. Nú eru öll verkalýðsfélög á Íslandi á móti þessum vinnubrögðum. Ég segi eins og er, hæstv. forseti, að þessi framkoma við verkalýðshreyfinguna er stórhættuleg ef hún er fordæmi, sem hún getur orðið. Ef hún er fordæmi með þeim hætti að ríkisstjórnir framtíðarinnar leyfi sér ekki aðeins að hlutast til um kaupið og niðurstöður einstakra kjarasamninga heldur líka um skipulag verkalýðssamtakanna í heild. Það er fyrst og fremst af þessum ástæðum en ekki út af einstökum efnisatriðum sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sameinast um að vera á móti þessum frv. Og ekki aðeins hafa þeir sameinast um það heldur hafa þeir staðið með verkalýðshreyfingunni í landinu allri í þeirri baráttu. Það er hættan á fordæminu sem er það hrikalega við þessi mál. Það er hinn alvarlegi veruleiki. En það virðist vera sama hversu oft það er sagt hve fordæmið getur verið hættulegt. Talsmenn stjórnarflokkanna heyra það ekki eða vilja ekki heyra það. Nú getur auðvitað verið að innra með þeim blundi sú ósk að þetta verði ekki til þess að skapa vanda. Og ég er sannfærður um að þeir sem hugsa eitthvað um þessi mál vona að að þetta verði ekki til að skapa vanda. Enginn getur fullyrt 100% að það skapi vanda. En verkalýðshreyfingin hefur sagt óvenjumikið í þeim efnum. Og fara þar ekki fyrir orðhákar þar sem þeir eru trésmiðirnir Benedikt Davíðsson og Grétar Þorsteinsson? En það er ljóst að það hefur býsna mikið verið sagt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Þeim mun undarlegra er það að menn virðast ekki ugga að sér. Og maður spyr sig: Skipta þá ályktanir engu lengur? Á þá að hætta að reyna að hafa áhrif á gang mála hér í þessari stofnun? Svarið er reyndar nei við þeirri spurningu. Í fyrsta lagi vegna þess að stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin hafa haft mikil áhrif á frumvörpin. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Það hafa orðið miklar breytingar á báðum þessum frv. Mjög miklar breytingar. Það er ekki nokkur leið að þakka það öðrum en stjórnarandstöðunni vegna þess að ef hún hefði ekki verið þá hefði stjórnarliðið tekið þessi frv. í gegn einn, tveir, þrír án þess að tala við nokkurn mann. Það er því augljóst mál að það er stjórnarandstaðan sem hefur barið það fram, m.a. með beiðnum um umsagnir og umræðum hér, að málin væru tekin til skoðunar og þau hafa tekið miklum breytingum. Í öðru lagi spyr maður: Getur verið að þessar alvarlegu ábendingar verkalýðshreyfingarinnar séu einskis metnar á Íslandi lengur? Er það virkilega þannig að stéttarfélögin í landinu mæti hér bergmálslausum múrum Alþingishússins? Er það þannig? Getur verið að það þýði ekki lengur? Það hefur verði beitt svo að segja öllum löglegum, eðlilegum leiðum samkvæmt þingsköpum. Menn hafa talað, menn hafa flutt tillögur, menn hafa flutt dagskrártillögur, menn hafa gefið út nál. Það hefur ekki hrifið. Öll stéttarfélög landsins hafa sent frá sér mótmæli við því að málið skuli vera afgreitt. Það hefur ekki hrifið. Það hefur ekki einu sinni verið gert hlé á málinu af hæstv. ríkisstjórn. Er það svo, hæstv. forseti, að stéttarfélögin í landinu verði að búa við það að mál eins og þessi fari í gegn hvað sem hver segir? Og að forustumenn Vinnuveitendasambandsins og Verslunarráðsins, fyrrverandi og núverandi, geti látið vélina hér mala yfir hvern einasta mann? Er það þannig, hæstv. forseti? Er þessi stofnun ekki til neins? Hvar er neistinn? Það fer ekki mikið fyrir honum. Mér kemur í hug Jóhannes úr Kötlum sem spurði: ,,Er ekkert eftir í æðunum á þeim, nema tóbak og kaffi og brennivín?`` Er ekki ærlegur blóðdropi eftir í sambandi við þessa hluti? Mér liggur við að segja að það hafi birst neyðarkall frá allri verkalýðshreyfingunni á Íslandi. Þetta er sorgleg niðurstaða, hæstv. forseti.

Hér er verið að innleiða hagfræði hins aukna svigrúms. Hér er haldið þannig á málum að fjármagnið eigi að gefa meira frelsi og menn þurfa þá ekki svo mikið að hugsa um viðbótarskyldur sem fylgja því að vera með fólk í vinnu. Auðvitað er ljóst að eftir því sem reglurnar eru færri og lögin veikari, því meira svigrúm hefur fjármagnið. Það er alveg rétt að það er mikið vesen að þurfa að borga kaup og láta það hafa forgang þegar það blasir við að menn gætu keypt hlutabréf og grætt á þeim 100 millj. eða guð veit hvað. Það er ferlegt vesen. Það er óskaplegt vesen að þurfa að hlýta reglum um öryggi, aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum í einstökum atriðum. Það er alveg rétt að með því að losa um þessa hluti þá hafa menn meira frelsi fyrir seðlana. En ég hélt að það væri ekki svoleiðis þjóðfélag sem við vildum. Að minnsta kosti er ég alveg viss um að flokkur sem sagðist vilja hafa fólk í fyrirrúmi sagði ekki seðlana í fyrirrúmi fyrir síðustu kosningar.