Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:13:34 (6837)

1996-05-30 13:13:34# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þið, meiri hlutinn hér, eruð að innleiða boð og bönn. Það eruð þið. Það er meiri hlutinn hér sem er að innleiða höft. Það er meiri hlutinn hér sem er að innleiða fjötra. Ekki á fjármagnið í einstökum atriðum, því það er verið að auka frelsi þess, heldur á fólkið.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því hvernig kaupmáttur hefði verið að batna hér. Af hverju er það? Það er meðal annars vegna þess að verkafólkið á Íslandi, launafólkið á Íslandi, hefur lagt sig fram. Meðal annars með því að gera kjarasamninga, m.a. með því að vinna heiðarlega gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum. Og hvað gera þeir þá þegar batinn er að koma? Þá berja þeir á framrétta sáttahönd þessa fólks og hefta hana í fjötra laga sem fólkið vill ekki.

Varðandi það hvað er skætingur, hæstv. forseti, þá er það t.d. skætingur að kalla málflutning manna hér fjas, svo ég nefni dæmi. Ég held að það hafi allir í rauninni reynt að vanda sig og hv. þm. líka. Ég tel hins vegar að hann sé á villigötum og mér finnst sárara að sjá hann þar en suma aðra.