Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:27:51 (6841)

1996-05-30 13:27:51# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:27]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin. Hann svaraði hér nokkrum spurningum sem ég beindi til hans í ræðu minni fyrr í dag. Ég vil í fyrsta lagi varðandi samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 og 158, sem eru grundvallarsamþykktir um starfsöryggi, benda hæstv. ráðherranum á að viðræður og tilraunir til samráðs hafa verið í gangi um þessar samþykktir í óralangan tíma. Þetta hefur margoft verið tekið upp í nefnd, þríhliða nefnd aðila vinnumarkaðarins. Meðal annars átti ég þátt í slíkum viðræðum nokkrum sinnum sjálf. Það var lengi reynt að fá þessar samþykktir fullgiltar út úr þessari nefnd, en afstaða atvinnurekenda í þeirri nefnd var algjörlega skýr. Þeir vilja ekki fá þessar samþykktir fullgiltar. Það er bara prinsippmál af þeirra hálfu. Þannig að ég held að samráðið hafi nú verið fullreynt ef miða má við það hvað hæstv. félmrh. telur fullreynt í hópnum um samskiptareglur á vinnumarkaði þar sem við erum að tala um samráð frá því í lok árs, ef ég man rétt, til byrjunar árs 1996. Ég veit að þegar ég tók sæti í þríhliða nefnd aðila vinnumarkaðarins 1992 þá voru þessar samþykktir búnar að vera lengi þar til umræðu og voru enn á dagskrá.

Ég vil hins vegar fagna yfirlýsingu hæstv. félmrh. sem hann gaf hér áðan varðandi starfsöryggissamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 156 og 158. Hann lýsti því yfir að hann vildi gefa vinnumarkaðinum færi á því að semja um þessi mál sín á milli fyrir haustið. Ef ekki verður um það samið þá mun hann leggja til að þær verði fullgiltar, ef ég skildi yfirlýsingu hæstv. félmrh. rétt. Ég fagna þeirri yfirlýsingu.