Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:30:18 (6842)

1996-05-30 13:30:18# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru auðvitað pínulitlar þversagnir í þessu eins og oft í lífinu. Tilraunir til samráðs hafa verið lengi í gangi, segir hv. þm. Tilraunir til samráðs höfðu líka verið lengi í gangi um að komast á eina skoðun um samskipti á vinnumarkaði. Þá er það spurningin hvenær samráð er fullreynt. Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan. Ég kýs ef mögulegt er samráð. En ef samráð verður ekki, ef samráðið snýst bara upp í þrátefli eins og stundum hefur gerst og m.a. í þessu máli, er ekkert um annað að ræða fyrir framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið en að höggva á hnútinn. Það er akkúrat hlutverk löggjafans sem starfar í umboði almennings og á að vinna eftir þjóðarheill að höggva á hnútinn þegar samráð tekst ekki eða gengur ekki upp og deilur leysast ekki með öðrum hætti.