Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:38:29 (6847)

1996-05-30 13:38:29# 120. lþ. 154.3 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. félmrh. að ég óskaði eftir því í gær að þessari umræðu yrði frestað. Það var sökum þess að það lá fyrir ágreiningur um stöðu þessa máls samkvæmt samþykkt sem Samband ísl. sveitarfélaga hafði sent þingmönnum. Ég taldi þar af leiðandi nauðsynlegt, þar sem hér var til umfjöllunar breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og talsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga vísuðu til þess frv. í sínu áliti til þingmanna, að óska eftir frestun á umræðunni og að staða þessa máls yrði skýrð. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. félmrh. greindi hér frá. Ég tel að málið hafi þar með fengið farsæla niðurstöðu og sé í höfn og af þessari beiðni minni hafi orðið nokkur uppskera. Ég fagna því og þakka þessar málalyktir.