Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 15:07:59 (6850)

1996-05-30 15:07:59# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[15:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson flutti mjög góða ræðu og kom víða við. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir mjög gott samstarf í efh.- og viðskn., en þar fór fram mjög málefnaleg og góð vinna við þetta frv.

Margt af því sem hann nefnir sem dæmi er í rauninni tómt mengi. Hann talar um fólk sem er með 6 millj. í arðgreiðslur. Ég efast um að nokkur maður sé með það. Ég leyfi mér jafnvel að fullyrða að enginn sé með svo háar arðgreiðslur. Hann talar um að verið sé að flytja hagnað frá hinum fátækari til hinna ríku með því að leyfa að söluhagnaður sé skattlagður með 10%. Söluhagnaður er nánast tómt mengi í dag. Ég bendi á að á árinu 1994 var samanlagður söluhagnaður á framtali 300 millj., sem sagt ekki neitt neitt miðað við vextina sem voru 9.500 millj. Söluhagnaðurinn var ekki neitt neitt vegna þess hvað hann er mikið skattlagður. Það er búið að skatta þennan skattstofn niður í tómt mengi. Það er spurning hvort menn vilja hafa það þannig að peningarnir liggi einhvers staðar dauðir í stað þess að vera virkir í atvinnulífinu.

Enn þurfti ég að hlusta á það að nú ætti að breyta atvinnutekjum í arð og það væri einhvern veginn hagstæðara núna en það hefur verið. Það er ekkert hagstæðara. Það hefur alltaf verið möguleiki en á móti því hefur skattstjóri fullt af tækjum eins og hlunnindamat, reiknaðar tekjur sjálfstæðra atvinnurekenda og fleira. En ég vil spyrja hv. þm.: Telur hann eðlilegt að maður sem á 10 millj. og kaupir íbúð og leigir hana út skuli borga eignarskatt og tekjuskatt? Ef hann kaupir hlutabréf skal hann borga eignarskatt og tekjuskatt að fullu, 42%. Ef hann selur þau með hagnaði er skatturinn 42%. Ef hann leggur féð í banka eða kaupir fyrir það spariskírteini er það í dag bæði eignarskattsfrjálst og tekjuskattsfrjálst. Telur hann þetta eðlilegt ástand og telur hann eðlilegt að stýra peningum á þennan hátt frá atvinnulífinu og til bankanna og ríkissjóðs?