Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:16:43 (6856)

1996-05-30 16:16:43# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:16]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. sagðist hvorki vera trúboði né skemmtikraftur enda væri hann ekki lengur þjónandi í kirkjunni. (HjálmJ: Það sagði ég ekki.) Ég hélt nú satt að segja að bæði trúboðar og skemmtikraftar fyndust utan kirkjunnar og hann gæti gegnt báðum hlutverkum með sóma jafnvel þótt hann sæti hér á Alþingi.

Hitt er annað mál að það sem ég sagði við hann og bað hann að taka eftir og veita athygli, er að hér er verið að búa til tvöfalt kerfi. Annars vegar skattkerfi fyrir launafólk þar sem skattleysismörkin eru 700 þús. kr. fyrir einstakling og 1.400 fyrir hjón og skattprósentan er um 40% þar fyrir ofan. Hins vegar skattkerfi fyrir eignafólk þar sem skattleysismörkin eru 2.950.000 kr. fyrir einstakling og 5.900.000 kr. fyrir hjón og tekjuskattsprósentan fyrir tekjur þar yfir er 10%. Ég spurði hvort þetta samrýmdist kristilegu hugarfari um jafnrétti, um jafnrétti hinna smáu og hinna ríku.

Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, að hv. formanni, hæstv. formanni efh.- og viðskn. (VE: Það er nóg að segja hv.) --- Ég sagði hv. --- takist að sannfæra Hjálmar Jónsson alþingismann ...

(Forseti (StB): Háttvirtan.)

... um að þetta sé réttlæti.