Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:21:26 (6859)

1996-05-30 16:21:26# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:21]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar á því að þeir möguleikar sem fyrirtæki hafa til að draga arð frá sínum tekjum miðast við 7% af nafnverði hlutafjár. Það er nú allt og sumt sem hægt er að greiða út með því að draga frá tekjum. Ég hygg að það séu nú engin býsn í arðsemi af því fé sem í fyrirtækin er lagt ef fyrirtæki greiðir slíkan arð, og þess vegna engin býsn þótt slíkur arður sé skattlagður með 10%. Ég mundi fagna því ef atvinnulífið gæti greitt slíkan arð til þeirra sem hafa lagt fé í atvinnurekstur og skil þess vegna ekki þær gífurlegu áhyggjur sem hv. þm. hefur af slíkum arðgreiðslum sem yrðu þá skattlagðar með 10% alveg eins og vaxtatekjur sem fólk hefur þegar það leggur peninga í ríkisskuldabréf eða aðrar eignir sem gefa slíka arðsemi. Ef arðgreiðslan út úr fyrirtækinu fer umfram 7% af nafnverði hlutafjár þá er hún skattlögð líka með 33%. Heildarskattlagning fer þá í 33% plús 10% sem er vel yfir 40% eða milli 40 og 50% sem ég tel að hv. þm. hljóti að geta viðurkennt að er bærilega drjúg skattlagning. Þess vegna er ekki rétt eins og hv. þm. heldur fram að það sé verið að færa eigendum fyrirtækja stórkostlega fjármuni þarna á silfurfati. Það er einungis verið að gefa mönnum eðlilega möguleika á því að hagnast á atvinnurekstri. Ég hlýt að trúa því að hv. þm. sé mér sammála um að það sé gott mál.