Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 20:34:54 (6864)

1996-05-30 20:34:54# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, GE
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[20:34]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ágætu áheyrendur og ágætu áhorfendur. Nú eru bjartir og fagrir vordagar á Íslandi, náttúran er 3--4 vikum fyrr á ferðinni en oft áður. Það eru betri horfur hjá flestum fyrirtækjum og ríkissjóði en verið hefur um árabil. Þessu ráða ytri skilyrði, hagstæðir markaðir og vaxandi sjávarafli. En eftir sitja fjölmörg íslensk heimili sem eru í skugga skulda og með of lágar tekjur til að standa undir þeim.

Það er komið að umræðu eða uppgjöri eftir fyrsta starfsár ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í helmingaskiptum við Framsókn. Fyrir síðustu kosningar lýstum við alþýðuflokksmenn því í okkar ræðum að efnahagskreppa síðustu ára væri að líða undir lok. Núna er unnt að gefa út dánarvottorð á kreppuna hjá ríkinu og mörgum fyrirtækjum en því miður ekki hjá mörgum fjölskyldum. Við sögðum betri tíma í vændum, nú væri komið að því að bæta stöðu heimilanna í landinu. Horfur á aukningu í þorskveiðum, síld og loðnuveiðum lágu fyrir. Markaðshorfur hagstæðar, skuldasöfnun erlendis stöðvuð og stöðugleiki kominn á í efnahagskerfi þjóðarinnar. Allar okkar spár hafa staðist. Fyrirtækin í landinu hafa rétt úr kútnum eins og varð að gerast. Þau fóru að skila hagnaði svo miklum að hundruðum milljóna skiptir í sumum tilvikum vegna enn betri aðstæðna en spáð var. Það sem út af stendur er staða heimilanna.

Skuldir hafa aukist. Framfærslugetan hefur versnað þrátt fyrir kaupmáttaraukningu vegna þess að fólk hefur minna milli handanna vegna samdráttar í atvinnu. Sá tími er liðinn að unnt sé að bæta við sig yfirvinnu til að rétta af fjárhaginn. Sá tími er löngu liðinn að verðbólgan minnki skuldirnar. Þingmenn úr öllum flokkum hafa birt vilja sinn í ræðum og ritum til að bæta stöðu heimilanna en það verður að fylgja viljanum eftir með aðgerðum. Við skuldum svo mikið erlendis að við verðum á þessu ári að greiða 40 milljarða í afborganir og vexti, tvöfalda þá upphæð sem síldin og loðnan gefur okkur samtals. Þessi upphæð er sambærileg við það sem heilbrigðis- og tryggingakerfið kostar. Í því kerfi stynja menn undan niðurskurði og standa blóðugir upp að öxlum í samdrættinum með lokaðar sjúkradeildir og sjúklingana liggjandi á salernum og baðherbergjum til að halda niðri kostnaði eða til að vera sem næst fjárlagaheimildum.

Mikið fjármagn hefur farið í súginn vegna rangra fjárfestinga. Bankakerfið hefur tapað 50 milljörðum kr. á sl. sex árum í ógreiddum útlánum. Hverjir bera þar ábyrgð? Eru það ekki einstaklingarnir? Er það ekki íslenska þjóðfélagið sem verður að bæta fyrir þau afglöp? Afleiðingar þessa m.a. hafa orsakað það að við höfum dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar hvað varðar lífskjör. Hér eru ráðstöfunartekjur allt að 20% lægri en hjá Dönum þegar tekið er tillit til allra aðstæðna. Þetta hefur leitt til fólksflótta frá Íslandi, aðallega til Danmerkur þar sem flestir hafa sest að sl. ár og enn er atgervisflótti frá Íslandi. Á annan tug fjölskyldna eru þessa dagana að flytja frá landinu þrátt fyrir að þjóðinni séu kynntar betri horfur eða horfur á 4% kaupmáttaraukningu. Þessa þróun verður að stöðva. Þess vegna tel ég að löggjafinn verði að grípa inn í atburðarásina með lagaboði um lágmarkslaun og lögbindingu þeirra, þótt einstaka aðilar séu ekki sammála slíkri hugmynd um inngrip í verkefni aðila vinnumarkaðarins.

Það er staðreynd að í raun er verið að greiða niður launakostnað á Íslandi. Það lýsir sér í því að það verður að greiða á annan milljarð kr. í félagslega aðstoð til fólksins í landinu samanlagt samkvæmt svari hæstv. félmrh. við fyrirspurn minni þar að lútandi. Þetta hafa ríki og sveitarfélögin greitt vegna báginda fjölskyldna og einstaklinga. Einnig hafa Rauði krossinn og kirkjan lagt lið með stórfelldum matargjöfum, að ótalinni samhjálp stórfjölskyldunnar. Þetta varð til þess að sá sem hér stendur lagði fram á Alþingi frv. til laga um lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur og hámarkslaun.

Lagafrv. þetta ætti að afgreiða nú á síðustu dögum þingsins. Frv. var lagt fram 1. apríl sl. eins og tilskilið var með þingmannamál. En enn hefur ekki gefist kostur á að taka það til umfjöllunar. Ég er sannfærður um að enginn þingmaður mun leggjast gegn megininntaki þess máls sem lýtur að því að lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu skuli ekki vera lægri en 80 þús. kr.

Ágætu tilheyrendur. Lág laun hafa leitt til fátæktar. Þess vegna flyt ég þetta frv. sem er í og með ádeila á forustu þjóðfélagsins fyrir að hafa ekki staðið sig sem skyldi. Já, góðir áheyrendur. Þetta frv. er ádeila á forustu þjóðfélagsins. Hún hefur ekki sýnt mannúð og umhyggju.

Ágætu áheyrendur. Ég hef lokið máli mínu og ég óska þjóðinni til hamingju með sjómannadaginn á sunnudaginn kemur. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.