Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:08:50 (6868)

1996-05-30 21:08:50# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. setti sér skýr efnahagsmarkmið í upphafi starfsferils síns. Verkefnið er að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum, skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti, fjölga störfum og stuðla að bættum lífskjörum. Við lok þessa þings er eðlilegt að fara yfir stöðuna og meta árangurinn.

Í fyrsta lagi er hagvöxtur hér á landi nú meiri en að meðaltali í OECD-löndunum, en það eru 25 auðugustu lönd heims. Þetta eru mikil umskipti frá árunum 1987--1993 en á því sex ára bili var enginn hagvöxtur hér á landi til jafnaðar.

Í öðru lagi er verðbólga hér á landi ein sú minnsta í heiminum og sl. fimm ár hefur hún verið undir meðaltali í OECD-ríkjunum. Áður var óðaverðbólga eitt helsta einkenni íslensks efnahagslífs.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á árunum 1995 og 1996 vaxi um 8--9% en til samanburðar má nefna að kaupmátturinn rýrnaði um 20% á árunum 1988--1994.

Í fjórða lagi fer atvinnuleysi minnkandi og spáð er að það verði rúmlega 4% af vinnuafli á þessu ári. Atvinnuleysi í samanburðarlöndunum er helmingi meira. Störfum mun fjölga um 2.500--3.000 á þessu ári.

Í fimmta lagi hefur viðskiptajöfnuður verið jákvæður sl. þrjú ár í kjölfar sex ára halla í viðskiptum við útlönd. Viðskiptajöfnuður verður neikvæður í ár einungis vegna uppbyggingar álversins.

Í sjötta lagi hefur erlend skuldasöfnun verið stöðvuð. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað um 7% af vergri landsframleiðslu á síðustu þremur árum en á árunum 1987--1993 óx skuldahlutfallið um 14% á sama mælikvarða.

Í sjöunda lagi hafa vextir lækkað á undanförnum árum. Á árinu 1991 voru raunvextir á spariskírteinum rúm 8%, en eru nú um 5,5%.

Í áttunda lagi hefur ríkissjóðshallinn minnkað. Á þessu ári verður hann helmingi minni en í fyrra. Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja fram hallalaust fjárlagafrv. næsta haust.

Í níunda lagi er talið að ríkisútgjöldin í ár lækki um 3% að raungildi. Frá árinu 1991 hafa ríkisútgjöld á mann lækkað um 8% en á árunum 1986--1991 hækkuðu þau um tæp 20%.

Allar þessar staðreyndir sýna efnahagsbatann og bera vitni um árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Þessi árangur í efnahagsmálunum hefur að auki verið viðurkenndur af þeim erlendu fyrirtækjum sem meta lánshæfi Íslands. Sú viðurkenning hefur þegar skilað sér í hagstæðari lánakjörum ríkissjóðs erlendis.

Árangurinn mælist einnig á alþjóðlegan mælikvarða með því að Ísland er eitt af aðeins fjórum Evrópuríkjum sem uppfylla öll skilyrði um inngöngu í Myntbandalag Evrópu. Að sjálfsögðu eru þessi umskipti ekki eingöngu ríkisstjórninni að þakka. Þjóðin er að uppskera árangur þess samstarfs sem átt hefur sér stað á undanförnum árum milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það samstarf er nú að skila sér í batnandi lífskjörum þjóðarinnar.

Í stefnuræðu sinni á þingi Alþýðusambandsins í síðustu viku ræddi Benedikt Davíðsson, fráfarandi forseti ASÍ, um síðustu kjarasamninga og sagði þá orðrétt:

,,Staðreyndin er hins vegar sú að kaupmáttur launa hefur aldrei vaxið jafnmikið við eins lágt verðbólgustig og þessir kjarasamningar tryggðu. Gera má ráð fyrir að kaupmáttur dagvinnulauna innan ASÍ vaxi að jafnaði um tæplega 6% á ári á árunum 1995 og 1996 á sama tíma og verðbólga er nokkuð innan við 2%. Þessu til viðbótar eykst kaupmáttur vegna afnáms tvísköttunar lífeyrisiðgjalda.``

Þessi orð Benedikts Davíðssonar lýsa vel gildi þeirrar stefnu sem við höfum fylgt, þ.e. að bæta lífskjörin án þess að raska stöðugleikanum.

Sá efnahagslegi stöðugleiki sem hér ríkir hefur gerbreytt möguleikum okkar til að horfa til framtíðar og móta stefnu til langs tíma. Heimilin, fyrirtækin og stjórnvöld geta gert áætlanir án þess að verðbólga líðandi stundar villi þeim sýn. Við þessar nýju aðstæður blasa tækifærin við í nýjum atvinnugreinum eins og hugbúnaðargerð og líftækni en einnig í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og við nýtingu fallvatna og jarðvarma. Stöðugleikinn hefur einnig gert stjórnvöldum kleift að horfa lengra fram á veginn en áður tíðkaðist. Dæmi um slíka framtíðarsýn má finna í skýrslu ríkisstjórnarinnar um bætta samkeppnisstöðu Íslands. Höfundar skýrslunnar sem eru forustumenn í atvinnulífinu benda réttilega á að með því að auka samkeppni sem víðast í atvinnulífínu, einnig í opinberri starfsemi, megi lækka verð og bæta þjónustu, en hvort tveggja leiðir til betri lífskjara.

Þá hefur ríkisstjórnin samþykkt stefnu um nýskipan í ríkisrekstri. Í framhaldi af því var rúmlega 40 ára gömlum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins breytt, en sú breyting er ásamt öðru nauðsynleg til að gera ríkisreksturinn sveigjanlegri og skilvirkari.

Annað dæmi um framtíðarsýn er yfirfærsla grunnskólakennslunnar til sveitarfélaga, en samfara yfirfærslunni tryggir ríkið viðbótarfjármagn til uppbyggingar og reksturs. Þessi breyting gerir allt í senn: Eflir sveitarfélögin, styrkir skólastarfið og bætir menntunina.

Þriðja dæmið um framtíðarsýn er nýleg stefnumörkun í íslenskri ferðaþjónustu sem samgrh. kynnti fyrir skömmu. Möguleikarnir í ferðaþjónustu eru miklir. Á næstu 10 árum gætu gjaldeyristekjur tvöfaldast og störfum fjölgað um 3 þúsund.

Fjórða dæmið um það hvernig langtímasjónarmið skila árangri eru nýlegar tillögur fiskifræðinga um aflaaukningu á Íslandsmiðum. Þetta er uppskera samstarfs fiskifræðinga og hagfræðinga undir forustu sjútvrh. sem á sínum tíma beitti sér fyrir aflatakmörkunum til að byggja upp fiskstofnana.

Ágætu áheyrendur. Með batnandi efnahag er mikilvægast að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum og koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun. Hallalaus ríkisrekstur er að sjálfsögðu æskilegur til að lækka vexti og efla atvinnustarfsemina. Það sem skiptir samt mestu máli er að stöðva skuldasöfnun ríkisins og koma þannig í veg fyrir að næsta kynslóð, börn okkar og barnabörn, þurfi að rogast með skuldaklyfjarnar. Það hlýtur að vera stefna okkar að Íslendingar framtíðarinnar fái svigrúm og frelsi til að velja sér markmið og leiðir á sínum eigin forsendum. Að því mun ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vinna. --- Góða nótt.