Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:31:55 (6871)

1996-05-30 21:31:55# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:31]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Hvers væntir fólk af starfi stjórnmálamanna og starfi þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr? Við getum að sjálfsögðu öll nefnt mörg atriði. Eitt hlýtur þó að vera okkur í huga öllum eða velflestum sem viljum landi og þjóð vel. Við ætlum þessari ríkisstjórn og einmitt þessari ríkisstjórn að skila nægum störfum til landsmanna og efla atvinnulíf landsmanna til farsældar og langrar framtíðar. Nú er þetta ekki lengur fjarlægt markmið heldur hefur svo gengið að við gætum náð þessu takmarki í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er óumdeilt að ríkisstjórnin hefur skapað þær góðu aðstæður sem henni var trúað til. Það er að sjálfsögðu ekki aðeins verk hennar einnar, heldur hafa flestir landsmenn lagt sitt af mörkum. En um leið og við gleðjumst yfir þessum góða árangri, vonandi njótum við öll ávaxtanna, hljótum við að leggja áherslu á þær skyldur sem við höfum við þá sem minna mega sin og standa höllum fæti.

Efling atvinnulífsins var einmitt eitt af meginatriðum í kosningabaráttu okkar framsóknarmanna. Það er ljóst að á því sviði þarf að grípa til margvíslegra úrræða. Engin ein lausn getur eflt atvinnulífið. Aðgerðir framsóknarmanna hafa mótast af þessu. Það hefur verið gripið til fjölþættra úrræða sem of langt mál yrði að telja. Ég nefni þó hér farsælar lyktir um stækkun álversins og iðn.- og viðskrh. Finnur Ingólfsson hefur einnig lagt fram víðtæka áætlun sem nefnd er Evrópuverkefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hún hefur fengið góðar undirtektir þegar verkefni hafa verið kynnt víða um land.

En um leið og við viljum efla atvinnulífið hljótum við að leggja áherslu á umhverfismál. Það er liðin tíð að við getum sífellt aukið starfsemi okkar og umsvif á öllum sviðum án þess að huga að því gjaldi sem við þurfum að greiða náttúru og náttúruvernd.

Verðmæti íslenskrar náttúru birtist okkur í fjölmörgum myndum. Allra þeirra hagsmuna þurfum við að gæta. En um leið verðum við að hafa í huga að leggja ekki öfgakenndar hömlur á atvinnulífið eða umsvif sem nauðsynleg eru til framfara. Þarna þarf hvort tveggja að haldast í hendur.

Umhvrh. Guðmundur Bjarnason hefur einmitt beitt sér fyrir löggjöf og aðgerðum á sviði umhverfismála sem markað hafa tímamót. Á erlendum vettvangi hefur verið skrifað undir samninga og vinnuáætlanir um eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga, verndun gegn mengun hafsins. Á sviði löggjafar á Alþingi má nefna setningu laga um spilliefnagjald, en í því felst að við sölu vara með spillandi efnum er gjald innheimt og það síðan nýtt til þess að farga þessum sömu efnum.

Þá vil ég einnig nefna tímamótalög um stjórnskipan náttúruverndarmála. Frv. um það efni er nú til afgreiðslu í þinginu. En þá er ónefnt brýnt verkefni á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Sú löggjöf og þær aðstæður sem nú ríkja í almannarétti eru algerlega óviðunandi. Nú háttar svo til að u.þ.b. 90% þjóðarinnar búa í þéttbýli á sama tíma og 10% landsmanna eru eigendur landsins. Eigendur eru ekki aðeins bændur heldur margir aðrir og breyting á eignaraðild á landi mun verða mikil ef að líkum lætur. Hagsmunir landeigenda eru miklir og ekki má ganga einhliða á réttindi þeirra. En um leið og við viðurkennum hagsmuni landeigenda til landnýtingar verðum við að horfast í augu við vaxandi útivist og óskir þéttbýlisbúa um aðgang að landinu.

Fólk flykkist nú til óbyggða og út í íslenska náttúru og þarfir manna eru margar. Hér má nefna fjallamenn, hestamenn, fólk sem stundar gönguferðir, jeppaakstur, snjósleðaakstur, veiðimenn og fleiri. Allt þetta fólk þarf sinn aðgang að landinu, hvert með sínum hætti og sem betur fer er nóg rúm fyrir okkur öll. Hins vegar er ljóst að ef ekki verður gripið til víðtæks samstarfs, skipulags og lagasetningar eru fyrirsjáanlegir árekstrar á þessu sviði.

Við sem í þéttbýlinu búum getum ekki sætt okkur við að ekki sé tekið á þessum málum og við getum heldur ekki sætt okkur við að sitja hjá þegar gengið verður til verka við lausn þessa mikilvæga verkefnis.

Virðulegi forseti. Störf þingmanna eru svo sannarlega margvísleg. Ég er einn þeirra sem sitja í Evrópuráðinu. Á vegum þess ráðs var ég sendur í kosningaeftirlit til Aserbaídsjan. Framkvæmd kosninganna þar var með svo herfilegum hætti að sendinefndin varð að gera stórfelldar athugasemdir og leggjast þannig gegn aðild Aserbaídsjan að Evrópuráðinu. Í þessu ágæta landi eru önnur lög og önnur trúarbrögð en við þekkjum hér heima. Húsbóndavald þar er mikið og eitt algengasta umkvörtunarefni okkar eftirlitsmannanna var það að heimilisfeður komu og kusu ekki aðeins fyrir sjálfa sig heldur fyrir alla fjölskylduna, syni sína, þá sem minna máttu sín og að sjálfsögðu lét ekki nokkur maður konu sína og allra síst dætur sjást á almannafæri við svo ábyrgðarmikil störf. Þannig kaus hver maður fyrir fjóra til sex, jafnvel allt upp í tíu. Slíkir kosningahættir þóttu að sjálfsögðu ekki boðlegir fyrir hið virðulega og lýðræðiselskandi Evrópuráð.

Virðulegi forseti. Lítum til íslensku kosningalöggjafarinnar. Hér eru að sjálfsögðu ekki stunduð kosningasvik, en vægi atkvæða hér á landi eru með þeim hætti að sumir hafa atkvæðavægi á við þrjá og fjóra meðan aðrir verða að sætta sig við minna. Ríkisstjórnin hefur í sáttmála sínum sett sér það markmið að vinna að breytingu á kosningalöggjöfinni. Ég vænti þess að það starf skili miklum árangri og m.a. auknum jöfnuði í vægi atkvæða í kjördæmum landsins. Slíkri lausn á að ná í góðri sátt, enda mun hún ekki raska byggð í landinu. Okkar framsóknarmanna bíða fjölmörg mikilvæg verkefni í góðu stjórnarsamstarfi. Sum þeirra eru erfið og snúin, en við göngum ótrauðir til þeirrar vinnu til þess að standa undir þeim miklu væntingum sem landsmenn gera til okkar.

Virðulegi forseti. Þótt alþýðuflokksmaður andi hér á mig, slær ekki að mér við þau störf sem ég á fram undan og ég styð þessa ríkisstjórn til góðra verka sem fram undan eru. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.