Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:38:50 (6872)

1996-05-30 21:38:50# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Einn af stuðningsmönnum Davíðs Oddssonar gaf honum kost á því með fyrirspurn í þinginu að segja okkur hinum hvernig kaupmáttur hefði þróast á undanförnum árum. Jú, takk bærilega. Meiri aukning en hjá hinum þjóðunum sem við berum okkur gjarnan saman við. Fyrirspyrjandi gat sér til um ástæður og dró þar upp þá glæstu mynd sem við vitum að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vill gefa af sér. En ef við berum þá mynd saman við veruleikann rímar veruleikinn þá við þá mynd sem hinn ungi þingmaður Sjálfstfl. var að reyna að telja sér og öðrum trú um? Er það myndin sem þúsundir gjaldþrota einstaklinga hafa fyrir sér? Er það myndin sem svífur fyrir hugskotssjónum sjúklinganna á biðlistunum eða lífeyrisþeganna sem þrátt fyrir að skrimta við hungurmörk hafa verið helsta matarhola ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar þegar skattheimta hefur verið hert? Varla.

En efnahagsstefnan að öðru leyti, atvinnulífið? Er þar þá ekki handfesta fyrir þá sem vilja trúa á hina glæstu mynd? Nei. Svo er ekki. Ef þið lítið yfir feril ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í þeim efnum, sjáið þið jafn vel og ég að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar leggur fyrst og fremst rækt við hinar gömlu atvinnugreinar, sauðfjárrækt og fiskveiðar sem næst landsteinum undir formerkjum einangrunar og einhæfni. Það er sú framtíð sem á að bjóða íslenskum ungmennum, þ.e. þeim sem komast að. Því æ færri þarf til þessara verka nema gripið verði til þess að þýfa túnin aftur um leið og æ stærri hluti þess afla sem veiddur er innan landhelgi er veiddur á smábátum undir sex tonnum á stærð.

Þjónusta og iðnaður, nýsköpun, frjáls viðskipti, upplýsingaþjóðfélag. Allt slíkt er fjarri þessari ríkisstjórn stóru framsóknarflokkanna beggja.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar afgreiddi \mbox{GATT-samn}ing\-inn með það að leiðarjósi að raska ekki hinu úrelta og dýra landbúnaðarkerfi. Guð hjálpi þeim sem hélt að nú yrði munað eftir neytendum. Svo kom búvörusamningurinn í kjölfarið. Þá voru til fleiri milljarðar í sauðfé en finnast þegar menntun barna okkar eða ungmenna er á dagskrá eða endurmenntun. Enda hver þarf endurmenntun þegar stefnan er aftur til fortíðar í atvinnumálunum?

Eða þau frumvörp sem snúa að launafólki og eru væntanlega þakkir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar til verkalýðshreyfingarinnar fyrir hennar góða þátt í efnahagsstöðugleikanum. Af hverju þarf á árinu 1996 að hirða upp gamlar og úreltar hugmyndir um ríkisrekstur, forræðishyggjuhugmyndir með forstjóravaldi? Nýrri hugmyndir sem gefa betri rekstur og kjör gera ráð fyrir allt annars konar stjórnun þar sem byggt er á samvinnu við starfsmenn.

Þeir sem til þekkja eru líka sammála um að vinnustaðarsamningar séu forsenda þess að unnt sé að semja á forsendum fyrirtækjanna sjálfra og starfsmanna þeirra. Í slíku fyrirkomulagi felast möguleikar til aukinnar framleiðni fyrirtækja og aukinna tekna. Slík er t.d. reynsla Dana sem mjög er vitnað til í þinginu. En ónei. Sá vísir sem var að þróast innan núverandi vinnulöggjafar er kæfður með hinu fráleita vinnumarkaðsfrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Áheyrendur góðir. Þið vitið jafn vel og ég að úthafsveiðar og þjónusta við sjávarútveg þar sem þekking okkar nýtist sérstaklega hefur, þrátt fyrir takmarkaðan skilning ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, byggt undir það að unnt er að reikna hér aukinn kaupmátt. En þá sér sú sama ríkisstjórn það helst til bjargar óbreyttu ástandi, kyrrstöðu hins gamla tíma, að setja lög um úthafsveiðar sem þrengja bæði að veiðum íslenskra skipa á úthafinu og löndunum og þjónustu við erlend veiðiskip. Án þess að tillit sé tekið til aðstæðna fortakslaust bann við því að þekking í sjávarútvegi sé seld hér. Eru kaup afla af erlendum veiðiskipum og þjónusta við þau ekki atvinna líka ef hún á sér stað hér á landi? Hvar er vaxtarbroddurinn? Hvar eru peningarnir? Hvar eru atvinnutækifæri framtíðarinnar? Eru þau í frumvinnslunni eða eru þau í þjónustu og nýsköpun? Á allt sem gefur peninga helst að vera í útlöndum á meðan einhæfni og lélegur kaupmáttur er varðveittur hér á landi?

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þorir ekki einu sinni að viðurkenna fiskvinnslu sem matvælaiðju sem eigi að sitja við sama borð og annar iðnaður. Þrátt fyrir allt það sem við hrósum okkur af að við séum að gera með slíkum glæsibrag í útlöndum mátti lítið breyta gamalli flokkun Hagstofunnar um það hvað flokkast sem iðnaður og hvað sem sjávarútvegur þegar fjallað var um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Þeim hagsmunum sem felast í óbreyttu ástandi fyrir sérhagsmunahópa mun ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki hagga. Frekar fórnar hún bættum lífskjörum hér á landi.

Mér finnst að enn á ný séu þeir sem ráða að setja yfir okkur eins konar píningsdóm, banna okkur viðskipti við útlendinga ef það raskar hagsmunum þeirra sjálfra og vina þeirra.

Góðir áheyrendur. Þetta er því miður sú mynd sem blasir við af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hún er góð við þá sem hafa hagsmuni af varðveislu sérhagsmuna, en framtíðin og fólkið í landinu eru mun neðar á listanum. --- Takk fyrir áheyrnina.