Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 22:40:12 (6881)

1996-05-30 22:40:12# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[22:40]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það er vor í lofti, unga fólkið fagnar próflokum og hvítu kollarnir setja svip sinn á samfélagið. Fram undan er góðæri ef marka má veiðihorfur og þjóðhagsspá. Gaman væri að geta komið fram fyrir þjóð sína og látið að sama skapi í ljós ánægju með ríkisstjórnina sem nú situr við völd. Því miður er það ekki svo.

Við kvennalistakonur komum inn í íslensk stjórnmál til að breyta þjóðfélaginu og setja mannréttindi og samábyrgð í öndvegi. Við viljum nýta reynslu og krafta kvenna til jafns við karla í þágu samfélagsins alls og jafnframt að konur og karlar deili sem jafnast með sér ábyrgð í einkalífi. Það er vægast sagt fróðlegt að huga að því hvernig ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. vinnur í algerri andstöðu við ofannefnd markmið. Farið er fram með hvert stórmálið á fætur öðru án samráðs og oft í fullkominni andstöðu við viðkomandi aðila í þeim tilgangi að brjóta niður velferðina og samábyrgðina í þjóðfélaginu. Ráðist er á aldraða, öryrkja, sjúklinga, kennara og almenna ríkisstarfsmenn en dekrað við forstjóra og sægreifa. Vegið er gróflega að sjálfstæði verkalýðshreyfingarinnar til að þóknast samtökum atvinnurekenda í Garðastrætinu.

Nýframkomin skýrsla félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála sýnir að mjög hægt gengur að framfylgja jafnréttisáætluninni frá 1993. Þrátt fyrir jafnréttislög í 20 ár og þrátt fyrir 65. gr. stjórnarskrárinnar um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna er að finna ótrúlega tregðu á mörgum sviðum jafnréttismála. Lítið hefur áunnist í að afnema launamun kynjanna þó að vonir séu bundnar við ókynbundna starfsmatið. Nýsett lög um réttindi og skyldur ríkisins hafa sett rétt fólks til fæðingarorlofs í uppnám og lítið bólar á því að afnema eigi sporslurnar sem skýra stóran hluta af launamun kynjanna. Þvert á móti má ætla að vald forstjóra til að hygla starfsfólki í launum að geðþótta muni auka launamuninn. Ein leið til þess að tryggja að konur komi jafnt að stefnumörkun í þjóðfélaginu og karlar er að bæði kynin eigi aðild að opinberum stjórnum, nefndum og ráðum, sbr. 12. gr. jafnréttislaganna. Nýleg úttekt sýnir að mjög hægt miðar í þeim efnum og þær nefndir sem núverandi ríkisstjórn hefur skipað á ferli sínum eru sama merki brenndar. Þá er athyglisvert hve hægt gengur að jafna þátt kynjanna í fjölmiðlum, bæði hvað tíðni viðtala snertir og með hvaða hætti rætt er við og um konur og karla í sambærilegum störfum. Karlarnir fá aukinn myndugleik, t.d. með tiltlum, á meðan dregið er úr slíku hjá konum. Sömu lögmál virðast ríkja í mörgum kennslubókum eins og fjölmargar rannsóknir sýna.

Við kvennalistakonur höfum flutt mörg mál á þessu þingi til þess að halda jafnréttisumræðunni gangandi og veita stjórnvöldum aðhald. Má þar nefna þingsályktunartillögur um lengt og bætt fæðingarorlof sem nær til beggja foreldra, um aðgerðir til að afnema launamun kynjanna og aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Ég er sannfærð um að umræðan um þessi mál hefur þegar haft áhrif og víða í þjóðfélaginu má sjá jákvæð merki um að jafnréttisumræðan sé að skila sér. Í því sambandi má nefna jafnréttisáætlun Seðlabankans. Einnig má nefna að Íslandsbanki og fleiri stofnanir hafa komið sér upp skipulögðum farvegi fyrir ásakanir um kynferðislega áreitni. Með þessu áframhaldi eru kvenbankastjórar væntanlega á næsta leiti (!).

Sterk staða kvenna í stjórn BHM er vonandi merki um að verkalýðshreyfingn sé að taka við sér í jafnréttismálum, svo og stofnun hagsmunafélags kvenna innan Félags háskólakennara. En mikið þarf enn að gerast til að kynin standi jafnt að vígi, bæði í einkalífi og á vinnumarkaði. Vonandi tekst karlanefnd Jafnréttisráðs með sínu góða starfi að hvetja karla til virkrar jafnréttisbaráttu því þetta er barátta beggja kynja. Markmiðið hlýtur að vera sómasamleg laun fyrir dagvinnu bæði kvenna og karla, sambærileg við laun í nágrannalöndum okkar. Báðir foreldar ættu að geta notið þeirra mannréttinda að taka virkan þátt í fjölskyldulífi, ekki síst í uppeldi barna sinna sem þurfa mikinn stuðning í heimi hraðra breytinga.

Herra forseti. Þau eru orðin mörg lagafrumvörpin sem Alþingi hefur samþykkt undanfarna daga þótt enn sjái ekki fyrir lok þingsins. Eitt þeirra eru ný framhaldsskólalög. Þessi lög eru því miður metnaðarlítil og horfa til fortíðar frekar en framtíðar að mörgu leyti. Megintilgangur þeirra virðist vera að minnka völd kennara og skólafólks og gefa menntmrh. meirihlutavald í öllum skólanefndum. Ég hafnaði þessu frv. í meðförum þingsins og tek undir með samtökum kennara sem ekki voru höfð með í ráðum við samningu frv. Lögin endurspegla menntastefnu sem ekki verðskuldar framgang, ómannúðlega menntastefnu samkeppni og aðskilnaðar.

Á næstu dögum eru fyrirhugaðar breytingar á lögum er varða sjávarútvegsmál. Ég er sannfærðari um það en nokkru sinni áður að við Íslendingar erum á mjög vafasamri braut í okkar sjávarútvegsmálum. Kvótinn færist á færri hendur og réttaróvissa ríkir um það hvort kvótinn er veðhæfur og telst alvörueinkaeign eða ekki. Tveir dómar hafa fallið í undirrétti sem gera mismikið úr sameignarákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna. Ef dómur Hæstaréttar fellur á þann veg að auðlindin sé einkaeign er í raun búið að afhenda nokkrum einstaklingum helstu auðlind þjóðarinnar til frambúðar og ekki aðeins nytjastofnana í fiskveiðilögsögunni því að til stendur að samþykkja úthafsveiðifrv. það sem tekið var með afbrigðum inn í þingið vegna þess hve seint það kom fram. Frv. á að keyra í gegn til þess að tryggja að þau réttindi sem í húfi eru fari örugglega til réttra aðila, að stórum hluta til sömu aðila og kvótinn í efnahagslögsögunni, með öðrum orðum sægreifanna í LÍÚ. Engin önnur þjóð hefur séð ástæðu til að flýta því að setja löggjöf um úthafsveiðar, enda knýr ekkert á nema ef vera skyldi svokallað veiðieftirlitsgjald á Flæmingjagrunni sem vel mætti lögfesta eitt og sér. Á meðan er smábátasjómönnum smám saman troðið inn í aflamarkskerfið með viðbótarkvóta og framseljanlegar veiðiheimildir sem gulrót. Með sama áframhaldi verður kvótinn í framtíðinni ekki í höndum kvenna, sem eru þó helmingur landsmanna, og ekki í höndum byggðanna sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Nei, aflaheimildirnar verða í höndum æ færri sægreifa, innlendra sem erlendra. Þessa þróun verður að stöðva og það strax. Réttlætiskennd margra er misboðið með þessu kerfi sem ekki verður hnekkt á meðan þessi ríkisstjórn situr.

Herra forseti. Kjör forseta lýðveldisins er fram undan og kosningabaráttan harðnar. Stundum heyrist það furðulega viðhorf að nú sé kominn tími á karlforseta af því að kona hafi gegnt embættinu að undanförnu. Ef þetta væru tæk rök væri um leið tímabært að fela konum öll þau valdaembætti sem karlar gegna nú. Látum ekki villa um fyrir okkur. Munum að þörf er á að standa vörð um hvern þann ávinning sem verður í kvenfrelsisbaráttunni. --- Góðar stundir.

[22:45]