Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 11:00:20 (6886)

1996-05-31 11:00:20# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[11:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Það er ekki orðið, herra forseti, sem ég er viðkvæmur fyrir heldur notkun þess, þegar stjórnarsinnar og reyndar ýmsir fleiri halda að það séu rök í máli að setja merkimiða af þessu tagi á sinn málflutning. Það er hægt að gefa hverju sem er svona merkimiða, nútímalegur, víðsýnn, framsækinn, lýðræðislegur og hvað sem er, alls konar afturhaldshugmyndir eins og við þekkjum. Ég skrifa ekki upp á að þær breytingar í íslenska skattkerfinu sem hafa verið að færa skattbyrði í stórum stíl frá hagnaði fyrirtækja, nettógróða fyrirtækjanna, yfir í brúttóskatta launamanna, séu eitthvað nútímalegar. Það er ekkert nútímalegt við það að vera að láta fólk borga tekjuskatt af launum langt undir framfærslumörkum. Þegar það kostar hátt á annað hundrað þús. kr. á mánuði að framfleyta vísitölufjölskyldunni á Íslandi, skal sú hin sama vísitölufjölskylda vera farin að borga bullandi tekjuskatt í ríkissjóð af launum langt, langt undir 100 þús. kr. Það er ekkert nútímalegt við það nema hugsun manna sé sú að nútíminn felist í því að hygla fyrirtækjunum og stóreignamönnunum, hlífa gróðanum við skatti og velta því öllu yfir á launafólk. Ef það er nútíminn í huga hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og kannski fleiri hv. þm., vil ég vera gamaldags. Þá vil ég vera gamaldags í þeim skilningi að ég vil þá standa með launamönnunum og reyna að verja þá og mjóu bökin í þjóðfélaginu fyrir þeirri aðferð hæstv. ríkisstjórnar að hengja endalaust byrðarnar á þá sömu og hlífa hinum. Það er ekki nútímalegt í þeim jákvæða skilningi sem ég vil leggja í það orð. Þar er bara allt annað á ferðinni, herra forseti.

Varðandi það að það sé alltaf sjálfgefið að aukinn gróði fyrirtækjanna komi launamönnum til góða, skili sér sjálfkrafa út í kaupið, hvað segir tímakaupið á Íslandi borið saman við tímakaup í nágrannalöndunum um það mál? Það sem ég var að benda á er að það eru fleiri farvegir fyrir gróða fyrirtækjanna en sá einn að fara í launagreiðslur. En hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði eins og það væri sjálfkrafa samhengi þar á milli. Það er bara ekki svo. Þótt ýmislegt af því sem fyrirtækin eru að gera með þennan gróða geti verið jákvætt eins og jafnvel fjárfestingar erlendis.