Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 11:06:57 (6889)

1996-05-31 11:06:57# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[11:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það átti alls ekki að vera hnjóð um hv. þm. þegar ég sagði að hann talaði út frá sinni lífssýn. Það átti einmitt að sýna þá virðingu sem ég ber fyrir hans skoðunum. Ég á við að hann rökstyður sitt mál út frá sínu sjónarhorni, sem er líka hárrétt.

En það sem ég fann út úr hans greiningu á vandanum var það að nú væru fyrirtækin að auka hlutafjárútboð og það gengi glimrandi vel að koma þeim út. Og hlutafjárútboð þýðir innstreymi fjár inn í fyrirtækin og auknar fjárfestingar og kaup á vélum, skipum og tækjum þýða aukna atvinnu.

Þetta frv. sem er samsuða fulltrúa allra flokka sem skrifuðu undir án fyrirvara, líka fulltrúi flokks viðkomandi hv. þm. Þetta er samsuða og hún gerir ekkert annað en það að hún hættir að mismuna eignarformum. Menn hætta því að beina fjármagninu til ríkisins frá atvinnulífinu. Það er það eina. Svo má kannski á eftir, ef vilji er fyrir hendi, fara að hygla atvinnulífinu, þ.e. að stuðla að þróun og öðru slíku. Að því gætum við hv. þm. unnið saman þegar menn eru hættir að mismuna fyrirtækjunum þannig að fjármagnið streymir frá atvinnulífinu til ríkisins.