Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:14:26 (6893)

1996-05-31 12:14:26# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög gagnmerk ræða og afar þörf inn í þessa umræðu. Hér komu tiltölulega ómenguð fram þau sjónarmið sem eru á öðrum enda eða kanti umræðna um þessi mál. Hv. þm. komst mjög langt með að sanna það fyrir okkur að í raun væri meira og minna öll skattlagning á þessa hluti ósanngjörn. Þetta væri þannig með vextina. Í þeim væri verðbótaþáttur. Í leigutekjunum væri ýmis kostnaður á móti, í arðinum væri að vísu ekki kostnaður og ekki verðbótaþáttur, en menn hefðu tapað hlutafé og þar af leiðandi væri þetta allt meira og minna ósanngjarnt. Hefði hv. þm. talað í 20 mínútur í viðbót býst ég við að hann hefði verið kominn yfir í það að í raun og veru ætti að borga þessum heiðursmönnum styrk sem hefðu fórnað fé sínu í þetta á undanförnum árum, svo ekki sé minnst á uppfinningamanninn þar sem uppfinningin hefði ekki heppnast.

[12:15]

Einnig var hv. þm. býsna drjúgur við að sanna það að þeim mun lægri skattar á atvinnulífið, þeim mun betra. Væntanlega endar það þá þannig að það er best að fella þá alveg niður. Það er albest að hafa bara enga skatta, er það ekki, með sama áframhaldi? Hvar endar þessi umræða?

Svo vil ég aðeins spyrja varðandi þetta með áhættuna og að það sé algerlega ósambærilegt að skattleggja tekjur af þessum toga og launatekjur. Er þetta þá þannig að launamaðurinn hafi engan kostnað? Er það þannig? Er engin áhætta fólgin í því að vera launamaður? Jú, er það ekki þannig að skattlagning á launamanninn er á brúttótekjur hans en ekki nettóhagnað eins og hjá fyrirtækjunum? Og er það ekki þannig að launamaðurinn tekur áhættu? Getur hann ekki orðið veikur eða misst vinnuna? Ef við förum út í þessar röksemdafærslur, þá veit ég ekki þegar upp er staðið hvor er verr leikinn, launamaðurinn eða fyrirtækin.

Auðvitað þýðir ekki að stilla málinu svona upp öðrum megin og segja: Það er áhætta, það eru töp o.s.frv. gagnvart fyrirtækjunum. Ergó: Allir launaskattar verða að lenda á launamanninum eins og hann sé með allt sitt á hreinu, eins og hann hafi engan kostnað, eins og hann taki enga áhættu í lífinu. Þetta er ekki þannig, hv. þm. Við skulum þá bara fara í þessa umræðu og hafa debet og kredit báðum megin. Þetta snýst um dreifingu skattbyrðinnar í þjóðfélaginu og að hver borgi sitt á sanngjarnan hátt. Hv. þm. hefur a.m.k. ekki sannfært mig um það að hinn hrjáði og kvaldi og illa setti meiri hluti séu peningamennirnir og stórfyrirtækin í þjóðfélaginu og þar af leiðandi verði að létta sköttum af þeim og færa þá yfir á launamenn.