Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:17:18 (6894)

1996-05-31 12:17:18# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði ekki til að það yrðu engir skattar á fyrirtæki. Það lagði ég ekki til. Ég fullyrti hins vegar að það kynni að vera að skattstofninn mundi stækka þannig að skatttekjur mundu aukast. Ég hygg að sú breyting sem hér er verið að gera, og ég er nærri sannfærður um það, muni auka tekjur ríkissjóðs.

Það er oft þannig að með því að lækka skatta sem eru orðnir íþyngjandi og þrúgandi og niðurdrepandi --- hin dauða hönd skattlagningar þegar hún er komin yfir mörkin --- þá getur það valdið því að atvinnulífið og viðkomandi skattstofn verði spriklandi kátur og lifandi og við sjáum framfarir og bjartsýni í staðinn fyrir stöðnun og drunga.

Varðandi skatta á einstaklinga þá er það rétt hjá hv. þm. að það er ekki tekinn inn kostnaður. Í sumum löndum eins og Þýskalandi er reiknaður inn kostnaður og ég teldi það umræðunnar vert. Ég sé t.d. ekki að fólk sem á börn og þarf að koma þeim á barnaheimili til að afla teknanna, geti ekki dregið frá skatti kostnaðinn við að afla teknanna. Ég þekkti konu sem var með 150 þús. kr. í laun, viðskiptafræðingur, en þegar hún var búin að borga barnaheimili og skatta og allt sem fylgdi, þá voru 32 þús. kr. eftir í launaumslaginu. Þetta mætti skoða að sjálfsögðu. Auðvitað þarf að taka allt skattkerfið til endurskoðunar en það var bara ekki verkefni þessarar nefndar. Hún átti bara að sjá um fjármagnstekjur, ekki einu sinni eignarskatta. En ég væri til í það með hv. þm. að fara í það að vinna að heildarendurskoðun skattkerfisins.