Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 13:47:33 (6901)

1996-05-31 13:47:33# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[13:47]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir flutti hér ágætt mál og ég þakka henni það. Hún vék að því að mikill tími hefði farið í að ræða um smábáta í gegnum tíðina. Allt er það hárrétt. Oft hefur mér fundist það vera of langur tími. Miðað við það magn sem úr hafinu er dregið hefði mátt fjalla meira um aðra þætti þeirrar mikilvægu greinar. Þingmaðurinn sagði einnig að kerfið sem þessir bátar búa við væri of mikið opið og hefði verið of lengi opið. Þingmaðurinn gaf jafnvel í skyn að opnað verði frekar fyrir heimildir til smábáta. Því sé ég ástæðu til að vitna til greinargerðarinnar sem með þessu fylgir og lesa hér upp örfá orð. Þar segir, m.a.:

,,Það frumvarp sem hér um ræðir byggist á samkomulagi milli Landssambands smábátaeigenda og sjávarútvegsráðherra. Meiri hluti nefndarinnar leggur því áherslu á að ákvæði frumvarpsins verði lögfest á þessu þingi. Meiri hlutinn gengur út frá því að Landssamband smábátaeigenda sjái til þess að þeir sem gera út krókabáta standi við samkomulagið, enda er með þessu móti komið mjög til móts við smábátaeigendur. Þá vill meiri hlutinn taka skýrt fram að ekki verða gerðar frekari breytingar á þeim reglum sem gilda um sóknardaga eftir lögfestingu þessa frumvarps.``

Hér er sem sé verið að reyna að binda þá enda sem kannski einhverjir mundu vilja halda að væru of laust hnýttir í þessu máli. Vissulega hafði ég efasemdir þar um og átti þess vegna hlut að því að menn reyndu að hnýta nú þá hnúta sem svo sannarlega þurfti að hnýta.