Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 14:48:00 (6904)

1996-05-31 14:48:00# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[14:48]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Við getum átt betri orðastað um þetta, ég og hv. þm. í sjálfu sér. En því miður verð ég að standa við mín orð um það að þarna sé á ferðinni gleymdur floti. Allt það sem hv. þm. nefndi er ekki eitthvað sem lýtur sérstaklega að þessum hluta skipanna heldur gildir það almennt yfir línuna og verksmiðjuskip og allir fá sinn hlut í því.

Það er að vísu rétt að þessi 40% afgangur af línutvöföldunarreynslunni kemur til úthlutunar. Pottarnir sem voru þegar ákveðnir og eru inni í gildandi lögum eru áfram til staðar en það er engin breyting á því núna. Kannski kemur einhver örlítil úthlutun vegna þess sem kvótasettar úthafsveiðar skila á næstu árum. En á móti kemur það að afleiðing þessa samkomulags verður sú að smábátapotturinn plús sú hlutdeild sem línutvöföldunarskipin fá inn í kerfið tekur til sín hluta af vaxandi veiðiheimildum á næstu árum sem ella hefði verið úthlutað, m.a. ekki síst til hins gleymda flota. Niðurstaðan er því mjög tvíbent út frá þessum hagsmunum séð vegna þess að það er verið að hleypa inn í vaxandi vöxt veiðiheimidanna á næstu árum fleirum en ella hefðu orðið þar. Og það er það sem talsmenn útvegsmannafélaganna og útgerðarinnar hafa auðvitað alveg sérstaklega gagnrýnt vegna þess að þeir hafa sagt: ,,Við höfum verið þolinmóðir og tekið á okkur þessar skerðingar í trausti þess og von að þegar veiðiheimildirnar færu að vaxa þá kæmi öll sú aukning til okkar.`` En það er að hluta til aftengt með þessu þannig að því miður, herra forseti, held ég að ég verði að segja að það sem ég sagði um hinn gleymda flota var ekki ofmælt.