Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 15:49:43 (6910)

1996-05-31 15:49:43# 120. lþ. 157.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[15:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og meðferð þessara mála á Alþingi markar kaflaskil í síðari tíma sögu samskipta verkalýðshreyfingar og ríkisvalds á Íslandi.

Árið 1978 reyndi ríkisstjórnin að brjóta verkalýðshreyfinguna niður, en þá sátu sömu flokkar við völd og nú. Stefnu þeirra þá var hafnað í kosningum vorið 1978. Síðan hafa stjórnvöld allra flokka reynt að eiga gott samstarf við verkalýðshreyfinguna eins og mögulegt er á hverjum tíma. Árangurinn af þessu samstarfi var m.a. þjóðarsáttin sem leiddi til þess að efnahagslífið er nú stöðugra og að ýmsu leyti sterkara hér á landi en hefur verið um langt skeið. Í stað þess að nota nú tækifærið til þess að endurnýja þjóðarsáttina og samstarfið er ráðist að verkalýðshreyfingunni með frv. þessu ef að lögum verður.

Í umræðunni um frv. hefur skapast víðtæk samstaða stjórnarandstöðuflokkanna. Í þeirri samstöðu felst stefnuyfirlýsing þeirra allra. Jafnframt hefur birst sterk samstaða með verkalýðshreyfingunni, ASÍ, BSRB, BHMR og öðrum launasamtökum. Hér er atkvæðagreiðslunni að ljúka en baráttan mun halda áfram úti í þjóðfélaginu og við munum að sjálfsögðu leggja þeirri baráttu lið. Ég segi nei.