Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:25:33 (6930)

1996-05-31 16:25:33# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, VE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:25]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa breytingartillögu. Eins og staðan er nú þá eru fjölmörg hlutafélög með miklar ónýttar heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Hér er á ferðinni einungis að reikna út fyrir öll fyrirtæki hversu mikið af jöfnunarhlutabréfum þau mættu gefa út ef þau svo kjósa til þess að hækka upp arðgreiðslustofninn og þá líka eignarskattsstofninn fyrir hluthafana.

Það sem hér er á ferðinni er það að fyrirtæki sem hafa hingað til forðast að gefa út jöfnunarhlutabréf og hækka með því nafnverðið, gætu hugsanlega þegar skattprósentan er komin niður í 10% farið að gera slíkt og í stað þess að það sé verið að færa peninga til hluthafanna trúi ég því að í framtíðinni muni tekjur ríkissjóðs af arði vaxa og að peningar komi inn í ríkissjóð en ekki fara út úr honum.