Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:03:08 (6934)

1996-05-31 17:03:08# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Áðan las ég upp úr ályktunum frá Þjóðvaka. Þá kallaði hv. þm. fram í að þetta hefði ekki verið samþykkt. Þessi ályktun sem ég las upp úr er í plaggi sem heitir Þjóðvaki, hreyfing fólksins, stefnuskrá, samþykkt á landsfundi 1995. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ætti því kannski að lesa örlítið betur þá stefnuskrá sem var samþykkt af hennar eigin flokki á hans eigin landsfundi. Og í blaði Þjóðvaka sem gefið var út skömmu fyrir kosningar, þ.e. mánudaginn 20. mars, segir t.d.:

,,Því hefur Þjóðvaki samþykkt að öllum smábátum og öðrum dagróðrarbátum sem veiða á aflamarki verði gefinn kostur á að velja krókaleyfi.``

Herra forseti. Þessi stefna Þjóðvaka er í stjarnfræðilegri firð frá málflutningi hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Þjóðvaki er hér í sínu eigin blaði að leggja til að öllum smábátum á aflamarki verði leyft að velja krókaleyfi. Ég held að það þurfi ekkert að sýna frekar fram á það, herra forseti, að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir er langt frá því sem hennar eigin hreyfing, hreyfing fólksins, lýsti yfir fyrir síðustu kosningar.