Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:06:16 (6936)

1996-05-31 17:06:16# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í frekari efnislegar umræður við hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, en ég get ekki annað en komið hér og leiðrétt aðeins það sem hún segir um samþykktir síns eigin flokks. Hún segir að það sem ég hef verið að lesa upp sé ekki partur af landsfundarsamþykktum heldur sé það samþykkt sem gerð hafi verið af sérstöku tilefni. Ég get upplýst þingheim um hvað þetta sérstaka tilefni var. Tilefnið var landsfundur Þjóðvaka. Þetta er Þjóðvaki --- hreyfing fólksins, stefnuskrá, Þjóðvaki, hreyfing fólksins samþykkt á landsfundi 1995. Hér er efnisyfirlit og hér er ályktun 20, þ.e. ályktun um sjávarútvegsmál á bls. 26. Og það er það sem ég hef lesið upp. Það er enginn fyrirvari á því. Þetta er það sem maður fær frá Þjóðvaka. Ég get því ekki annað en lýst a.m.k. vægri undrun minni yfir því að hv. þm. kannast ekki við stefnuskrá síns eigin flokks og jafnframt að hún skuli telja samþykkt þessarar ályktunar sem var gerð á landsfundi flokksins vera gerða af einhverju sérstöku tilefni. Þetta sérstaka tilefni sem hún talar um að hafi verið eitthvert skrýtið fyrirbæri var landsfundur, æðsta vald í málefnum Þjóðvaka.