Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:07:33 (6937)

1996-05-31 17:07:33# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:07]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekkert tilefni til þess að við förum að standa í einhverju orðaskaki, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 15. þm. Reykv., út af máli þar sem ekki ber meira á milli í sjónarmiðum heldur en það er tengist fiskveiðistjórnun og útkomu smábátahópsins í því sambandi.

Ég vil taka það sérstaklega fram vegna orða hv. þm. að ég tel mig tilheyra Grímseyjarkommúnismanum, þeirri grein hugmyndafræðinnar eða sósíalismanum. Það felur í sér að hafa alveg sérstakt dálæti á trillukörlum, einyrkjum og smáútgerðarmönnum eða útvegsbændum eins og þeir heita í Grímsey. Ég hygg að hún sé eini staðurinn á landinu þar sem menn bera enn með stolti þennan góða titil, kalla sig útvegsbændur. (Gripið fram í: Það eru útvegsbændur í Vestmannaeyjum.) Kannski eitthvað af þeim í Vestmannaeyjum en alla vega er alveg sérstakur sómi að því. Enda eiga þeir gjarnan kindur með, Grímseyingar, vel ættaðar.

Það er alveg hárrétt að ég hef líka á undanförnum árum oft verið ásamt hv. þm. í hópi þeirra sem hafa talað fyrir réttlátri úrlausn varðandi málefni smábátanna þannig að smábátaútgerðin í landinu gæti blómstrað og þróast sem lífvænlegur hluti af okkar útgerð. En auðvitað aðeins sem hluti af henni. Það er hins vegar ekki þar með sagt, herra forseti, að í því felist skuldbinding til að styðja ævinlega og utan endis allt sem lýtur að því að bæta hlut slíks hóps. Ég hef aldrei gefið nein loforð eða neinar skuldbindingar um að þetta þýði að ég sé sjálfkrafa alltaf með í því að gera hvað eina sem færir hluti til í átt til smábáta. Fyrir því þurfa að vera efnisleg rök. Spurningin hér snýr hins vegar frekar að aðferðum og útfærslu, eins og ég tel reyndar að ég hafi farið nokkuð rækilega yfir í minni ræðu, og jafnfræði aðila innan hópsins sem ég tel að skorti stórkostlega á. Og það er ágalli á máli að sjálfsögðu, þótt það geti verið gott í sjálfu sér fyrir einhvern tiltekinn hóp, ef það um leið skilur aðra sambærilega setta eftir á köldum klaka. Það var á þeim grunni sem minn málflutningur byggðist. Reyndar fór ég yfir það hversu vandasamt og mikilvægt það er að velja skynsamlegan upphafspunkt, viðmiðanir o.s.frv. þegar til kastanna kemur hygg ég að þetta sé frekar spurning um nálgun en endilega djúpstæðan málefnalegan ágreining á milli mín og hv. þm., sem er greinilega í góðu skapi í dag og yndislega ánægjulegt eins og jafnan að eiga orðastað við hann.