Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 18:11:37 (6949)

1996-05-31 18:11:37# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, SF
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[18:11]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að taka þátt í þeirri umræðu sem fram fer um stjórn fiskveiða. Ég mun ekki á neinn hátt fara ofan í þetta frv., það hefur hv. þm. Hjálmar Árnason gert en hann er ásamt Stefáni Guðmundssyni hv. þm., fulltrúi okkar í sjútvn., heldur mun ég tala á almennum nótum.

Frv. hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu vikur og sitt sýnist hverjum. Ég tel frv. vera mjög til bóta fyrir smábáta- eða krókaflotann og í anda þeirra hugmynda sem ég hef talað fyrir gagnvart smábátum og hlutverki þeirra. Hér er um verulega úrbót að ræða fyrir þann hluta flotans sem stundar veiðar með krókum enda er Landssamband smábátaeigenda einnig í meginatriðum sátt við frv.

Í síðustu kosningum höfðum við frambjóðendur framsóknarmanna í Reykjanesi nokkra sérstöðu gagnvart veiðum smábáta. Við vorum með nýjar áherslur og tillögur. Við sögðumst mundu beita okkur fyrir því að hafa eins mikil áhrif og við gætum í þinginu á þingflokk okkar gagnvart hlut smábáta ef við næðum kjöri. Það höfum við svo sannarlega gert bæði núna síðasta vor og einnig nú vegna þessa frv. sem við erum að ræða hér. Sérstaða okkar hefur komið skýrt fram í þingflokki okkar. Við höfum lagt okkur mjög fram við að rökræða þessi mál þar. Þær rökræður hafa að vissu leyti verið erfiðar en mjög gefandi og uppbyggilegar. Það er ljóst að ekki eru allir í þingflokki okkar hoppandi ánægðir með þessa niðurstöðu og þetta frv. eins og það lítur út. Ég get nefnt sem dæmi hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem er í sjútvn. Hann lýsti því yfir hér áðan í andsvari að hann hefði efasemdir um ýmislegt í frv. og las úr greinargerðinni til að undirstrika það. Hv. þm. stendur hins vegar að þessu frv. eins og þingflokkur framsóknarmanna. Ég nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir það hve hann hefur haldið skynsamlega að mínu mati á þessu máli.

Áðan talaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem styður frv. í meginatriðum enda eflir það krókabáta í landinu. Það var afar ljúft að hlusta á hv. þm. í þetta sinn því hann hefur verið mjög duglegur við að rifja upp kosningaloforð okkar framsóknarmanna í Reykn. og hefur hv. þm. verið að bera upp á okkur að hafa svikið loforð okkar gagnvart smábátasjómönnum. Nú ber hins vegar allt annað við eins og kom fram í ræðu hv. þm. Nú varð hv. þm. að eta það allt ofan í sig. Þetta var eitthvað annað en þorrablótsræður hv. þm. sem hann hefur verið mjög duglegur við að halda hér. Það er nefnilega þannig að við erum að standa við þessi kosningaloforð. Við lofuðum að reyna að hafa áhrif á þingflokk okkar og það höfum við sannarlega verið að gera.

[18:15]

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem því miður er ekki staddur hér, sagði að kosningarloforð okkar framsóknarmanna á Reykjanesi væru að mjakast í rétta átt. Þetta er sannarlega rétt. Lengra verður trúlega ekki komist að mínu mati. Það er ekki pólitískur vilji til þess eins og fram kemur í greinargerðinni en ég lýsi því yfir að ég er mjög ánægð með þennan árangur eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er líka. Sá hv. þm. hafði það á stefnuskrá sinni allt síðasta kjörtímabil að efla hlut smábáta. Hann sat í fjögur ár í ríkisstjórn en kom engu til leiðar. Hv. þm. brást að þessu leyti.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður enda nóg búið að tala í dag í þessu máli. Ég vil að lokum þakka hæstv. sjútvrh. fyrir framgöngu hans í málinu. Ég vil endurtaka að lokum að ég er mjög sátt við frv. enda er það í anda þeirrar stefnu í stjórn fiskveiða sem ég tala fyrir.